*

föstudagur, 28. janúar 2022
Erlent 16. nóvember 2021 18:05

Greiddi upp lán Andrésar prins

Einn stærsti bakhjarl breska Íhaldsflokksins greiddi upp 267 milljóna króna lán Andrésar prins árið 2017.

Ritstjórn
Prins Andrés
epa

David Rowland, einn af stærstu bakhjörlum breska Íhaldsflokksins, millifærði 1,5 milljónir punda, eða sem nemur 267 milljónum króna, til Andrésar prins ellefu dögum eftir að sá síðarnefndi fékk lán af sömu fjárhæð frá einkareknum banka í Lúxemborg, sem er í eigu fjölskyldu Rowlands. Bloomberg greinir frá.

Rowland millifærði peningana á reikning Andrésar hjá bankanum Banque Havilland í desember 2017. Millifærslunum er lýst sem einstakri innsýn fyrir breskan almenning sem hefur lengi furðað sig á hvernig Andrés hafði efni á sínum ríkulega lífsstíl miðað við það framfærslufé sem hann fékk frá breska ríkinu.  

Fékk undanþágu frá útlánaskilyrðum bankans

Beiðni Andrésar prins, sem hefur reynst Rowland-fjölskyldunni vel á pólitíska sviðinu í meira en áratug, um lán var samþykkt þrátt fyrir viðvörun frá starfsfólki Banque Havilland um að lánið væri ekki í samræmi við útlánaskilyrði bankans, samkvæmt innhússskjölum.

Bankinn veitti sjaldan, ef nokkurn tíma, óveðtryggð lán til viðskiptavina sinna, er haft eftir ónefndum fyrrverandi starfsmanni bankans. Veitt var undanþága í þessu tilfelli vegna möguleikans á að lánið myndi opna á frekari viðskipti við bresku konungsfjölskylduna.

„Þó að lánið sé óveðtryggt og veitt einungis með trúverðugleika umsækjandans í huga, þá ætti staða hans og móður hans sem æðsta þjóðhöfðingi Bretlands að tryggja aðgang að fjármagni fyrir endurgreiðslu ef þörf er á,“ segir í umsóknarskjali bankans.

Auka 33 milljónir fyrir uppihaldskostnað

Lánið sem Banque Havilland veitti árið 2017, og bar 8% nafnvexti, kom í stað fyrri 1,25 milljóna punda lánalínu sem hafði verið framlengd tíu sinnum frá árinu 2015. Um 250 þúsund pundin, eða um 33 milljónir króna, sem Andrés fékk til viðbótar við endurfjármögnunina segir í skjölunum að sú fjárhæð hafi verið eyrnamerkt fyrir „almennt veltufé og uppihaldskostnað“.

Lánið sem var á gjalddaga í mars 2018 var endurgreitt með 1.503 þúsund pundunum sem millifært var á Andrés frá fyrirtæki í eigu Rowland-fjölskyldunnar, sem skráð er á eynni Guernsey í Ermasundi.

„Þetta sannar að nauðsynlegt er að spyrjast fyrir um viðskipti Andrésar prins og tengingar hans við vafasama einstaklinga,“ er haft eftir Norman Baker, höfundi bókar um fjármál konungsfjölskyldunnar og fyrrverandi aðstoðarráðherra í innanríkisráðuneyti Bretlands. Hann kallar eftir því að breska ríkið hefji rannsókn á viðskiptum Andrésar.  

Hinn 61 árs gamli prins hefur verið Banque Havilland innan handar frá því að Rowlands-fjölskyldan keypti bankann árið 2009. Hann hjálpaði bankanum að koma upp fundum með ýmsum einræðisherrum, samkvæmt Bloomberg. Andrés var heiðursgestur á formlegri opnun Banque Havilland og gaf einnig ræðu við opnun útibús í Mónakó árið 2012.  

Andrés komst í heimsfréttirnar árið 2019 eftir ásakanir um kynferðislegt ofbeldi gegn 17 ára bandarískri stúlku, Virginiu Giuffre, á árunum 2001 og 2002. Tengsl hans við Jeffrey Epstein, sem lést árið 2019, hafa verið í deiglunni síðan þá og leiddi það m.a. til þess að hann lét formlega af opinberum skyldum sínum fyrir konungsfjölskylduna í fyrra.

David Rowland eignaðist sín fyrstu milljón pund með fasteignaviðskiptum á þrítugsaldri. Hann færði sig síðar í flutninga- og timburiðnaðinn. Rowland hefur lagt breska Íhaldsflokknum til meira en 6 milljónir punda. Árið 2010 valdi David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, Rowland sem gjaldkera flokksins.