Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið greiddi rúmlega 108 milljónir í ráðgjafakostnað á ríflega átta mánaða tímabili eða frá 1. júlí í fyrra til 15. mars síðastliðins. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, formanns þingflokks Vinstri grænna. Tveir ráðherrar skipta með sér ráðuneytinu en það eru Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Helmingur fjárhæðarinnar, eða 54 milljónir, fór til lögfræðinga sem unnu fyrir ráðuneytið. Næsthæsta upphæðin, eða 32 milljónir, er eyrnamerkt sem „önnur“ sérfræðiþjónusta. Viðskipta- og hagfræðingar, löggiltir endurskoðendur og rekstrarráðgjafar fengu greiddar 18 milljónir. Þýðendur og túlkar tæpar 4 milljónir og aðrir minna.