Heildarskattgreiðslur stóru bankanna þriggja - Landsbankans, Arion og Íslandsbanka - á árinu 2015 námu 27 milljörðum íslenskra króna. Bankarnir greiða af störfum sínum bæði tekjuskatt og sérstakan skatt sem lagður er á heildarskuldir fjármálafyrirtækja, sem flestir þekkja sem bankaskattinn.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í dag hafa allir bankanir skilað inn uppgjöri fyrir síðasta ár. Samanlagður hagnaður bankanna á árinu nam 109 milljörðum króna.

Af þessum fyrrnefndu 27 milljarða króna skattgreiðslum voru rúmir 18,3 milljarðar greiddir í tekjuskatt og rúmir 8,6 milljarðar í bankaskattinn sérstaka. Hér að neðan verður hver banki fyrir sig liðaður í sundur auk þess sem hagnaður hans er gefinn upp til hliðsjónar.

Íslandsbanki

Íslandsbanki hagnaðist um 20,6 milljarða á árinu. Íslandsbanki greiddi allt í allt 12,4 milljarða íslenskra króna í skatt til ríkisins, en af þeim voru 5,8 milljarðar í tekjuskatt og 2,8 milljarðar í sérstaka bankaskattinn. Íslandsbanki var því með minnsta hagnað bankanna þriggja en í öðru sæti þegar kemur að skattgreiðslum.

Arion banki

Arion banki hagnaðist um 49,7 milljarða króna á árinu 2015. Arion greiddi í heildina 5,9 milljarða íslenskra króna í skatt til ríkisins, en þar af voru 3,1 milljarðar í tekjuskatt og 2,8 milljarðar í sérstaka bankaskattinn. Arion hagnaðist því mest á árinu en borgaði minnstu skattana.

Landsbankinn

Landsbankinn hagnaðist um 36,5 milljarða króna á árinu 2015. Landsbankinn greiddi í heildina 12,4 milljarða íslenskra króna í skatt til ríkisins, en þar af voru 9,4 milljarðar í tekjuskatt og 3 milljarðar í sérstaka bankaskattinn. Landsbankinn var því í öðru sæti hvað hagnað varðar en greiddi mesta skattinn.