Álfyrirtækin Alcoa, Rio Tinto Alcan og Norðurál greiddu Landsvirkjun að meðaltali 30 dollara á megavattstund af rafmagni í fyrra samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslu Landsvirkjunar og opinberum gögnum um raforkumarkaðinn hér á landi. Verðið er um 43 prósent lægra en norski álframleiðandinn Norsk Hydro, sem í nokkur skipti hefur sýnt því áhuga að koma upp starfsemi hér á landi, þurfti að greiða að meðaltali í fyrra. Það fyrirtæki greiddi tæplega 53 dollara á hverja megavattstund vegna framleiðslu sinnar.

Meðaltalssöluverð Landsvirkjunar árlega, á rafmagni til stórnotenda, hefur ekki verið gefið svo nákvæmlega upp fyrr en í Viðskiptablaðinu í dag.

Meðalverð á áli á heimsmörkuðum í fyrra var 2.700 dollarar samkvæmt upplýsingum frá Bloomberg og London Metal Exchange en endanlegt söluverð Landsvirkjunar á orkunni tekur mið af álverði. Verðið er nú um 2.000 dollarar og hefur hækkað skarplega undanfarna mánuði eftir að það lækkaði niður í rúmlega 1.200 dollara í byrjun ársins.

Líklegt er að mikil tækifæri skapist fyrir íslensk orkufyrirtæki í framtíðinni að mati forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, þar sem orkan sem framleidd er hér á landi er umhverfisvæn. Á alþjóðamörkuðum hefur "græn" orka verið að hækka mikið í verði að undanförnu og því er spáð og hún eigi eftir að verða enn dýrmætari.

"Það skapar mikil tækifæri til framtíðar hversu umhverfisvæn orkan okkar er þar sem fyrirtæki sækja í að kaupa þannig orku. Hins vegar má segja að á meðan efnahagsástandið í heiminum er eins og það er í dag þá eru mörg önnur atriði í forgangi hjá fyrirtækjum. Til framtíðar eykur þetta hins vegar samkeppnishæfni fyrirtækisins og ætti að geta aukið arðsemi og hækkað söluverð á raforku til stórnotenda," segir Hörður.