Torg ehf., sem rekur Fréttablaðið og Hringbraut auk DV og tengdra miðla, greiddi 300 milljónir króna á síðasta ári vegna kaupa á DV. Endurskoðendur félagsins gera ekki fyrirvara við ársreikning þess en vekja þó athygli á skýringu varðandi mat á viðskiptavild þess og óvissu um rekstrarhæfi. Þetta má lesa úr ársreikningi félagsins.

Tekjur félagsins á síðasta ári, sem litað var af óvissu tengdri faraldrinum, námu rúmlega tveimur milljörðum og lækkuðu um tæplega 300 milljónir milli ára. Gjöld námu aftur á móti 2,5 milljörðum og hækkuðu um 270 milljónir milli ára. Aukninguna má rekja til aukins launakostnaðar í kjölfar samrunans við DV.

EBITDA félagsins var neikvæð um 506 milljónir en hafði verið neikvæð um 59 milljónir árið 2019. Að teknu tilliti til afskrifta nam rekstrartap 688 milljónum og tap af reglulegri starfsemi fyrir skatta nam 750 milljónum. Endanleg afkoma var neikvæð um 599,5 milljónir samanborið við 212 milljónir árið 2019. Yfirfæranlegt skattalegt tap nemur samanlagt 1.063 milljónum, þar af 749 milljónir vegna rekstrar síðasta árs, en það er ekki fært til eignar vegna óvissu um nýtingu.

Eignir félagsins í árslok voru metnar á tæplega 1,8 milljarða en nærri helmingur þess er í formi viðskiptavildar. Veltufjármunir námu 331 milljónum en þar af voru viðskiptakröfur 188 milljónir og handbært fé 17,6 milljónir. Langtímaskuldir nema 670 milljónum en afborganir af þeim á þessu ári nema 164 milljónum. Skammtímaskuldir nema alls 835 milljónum og heildarskuldir 1,5 milljarður. Eigið fé er jákvætt um 290 milljónir en hlutafé félagsins var hækkað um 300 milljónir að nafnverði, hækkunin var framkvæmd á genginu tvær krónur fyrir hvern hlut, á síðasta ári.

Ábendingar án þess að gera fyrirvara

Úr sjóðstreymi og afskriftayfirliti má lesa að greiddar hafi verið 300 milljónir fyrir DV á síðasta ári. Í skýringum segir að samdráttur í auglýsingatekjum hafi verið talsverður en á meðan hafi launa- og dreifingarkostnaður aukist. Brugðist hafi verið við með því að fækka útgáfudögum og starfsfólki.

„Áætlun ársins 2021 gerir ráð fyrir viðsnúningi í rekstri félagsins og að hagnaður verði á rekstrinum vegna þeirra aðgerða sem var og er verið að grípa til. Framkvæmt var virðisrýrnunarpróf á óefnislegum eignum félagsins í árslok 2020 og stóðust eignirnar prófið. Virðisrýrnunarpróf er byggt á áætlunum sem sýna bætingu á afkomu félagsins. Í ljósi þess að virðisrýrnunarpróf er byggt á áætlunum um hagnað í framtíðinni sem mögulega ganga ekki eftir er óvissa tengd mati á óefnislegum eignum,“ segir í skýringum við ársreikninginn.

Í áritun endurskoðanda er að finna ábendingu um téða skýringu og sagt að endurskoðandinn vilji vekja athygli á henni án þess þó að gera fyrirvara við álit sitt. Einnig er vakin athygli á óvissu um rekstrarhæfi félagsins án þess þó að gera fyrirvara þar um.

„Skammtímaskuldir félagsins námu 835,1 millj.kr. en veltufjármunir 331,4 millj.kr. í árslok 2020. Eftir því sem liðið hefur á vor og sumar ársins 2021 hefur rekstrarumhverfi félagsins batnað til muna. Auk þess hafa stjórnendur félagsins hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að styrkja og bæta reksturinn meðal annars í kjölfar sameiningar þriggja fyrirtækja sem nú er lokað að fullu. Mat eigna og skulda félagsins í ársreikningnum er byggt á að rekstrarhæfi félagsins sé til staðar og miðast við áframhaldandi rekstur,“ segir í áritun endurskoðanda.