Þriðjungur asískra flugfélaga býður viðskiptavinum sínum farþegasæti þar sem ekki eru leyfð börn. Air Asia og Malaysian bjóða nú þegar upp á slíka þjónustu. Á næstunni mun lágfargjaldaflugfélagið Scoot frá Singapore einnig bjóða slíka þjónustu.

Scoot mun bjóða fimm sætaraðir næst á eftir viðskiptafarrýminu fyrir farþega. Þær sætaraðir verða boðnar fólki sem er ekki á ferð með börn og er til í að greiða nokkur hundruð krónum meira fyrir sæti með meira fótaplássi sem einnig er án grenjandi barna. Nýja varan heitir ScootinSilence.

Hér á Norðurlöndunum hefur ekkert frést af því að bjóða eigi slík sérsæti án barna. Norski viðskiptavefurinn e24 spurði fulltrúa SAS út í málið. “Við höfum ekki fengið það margar kvartanir sem tengjast óhljóðum frá börnum og við munum ekki grípa til þessara ráðstafana,” segir Knut Morten Johansen, upplýsingafulltrúi SAS.