Kaupendur Símans stóðu að öllu leyti við greiðslur sem þeir áttu að greiða til ríkisins vegna kaupanna, að því er segir í svari fjármaálaráðherra , Katrínar Júlíusdóttur, við fyrispurn Margrétar Tryggvadóttur, alþingismanns.

Margrét spurði í fyrsta lagi hvert kaupverðið hefði verið, hve mikið af því hafi verið greitt og í hvaða formi greiðslurnar hafi verið. Í svari ráðherra kemur fram að samningur um sölu eignarhluta ríkisins í Símanum var undirritaður 5. ágúst 2005 og var söluverðið samkvæmt samningi 66.700 milljónir króna sem greiða átti í þremur tilgreindum gjaldmiðlum. Söluandvirðið var greitt í þremur gjaldmiðlum hinn 6. september 2005, þ.e. 34.506 milljónir íslenskra króna, 310 milljónir evra (23.870 milljónir króna) og 125 milljónir bandaríkjadala (7.717 milljónir króna). Söluandvirðið var lagt inn á reikninga í Seðlabankanum.

Fjármálaráðuneytinu er ekki kunnug um neinar vanefndir af hálfu kaupenda og samkvæmt svari ráðherra hafa frávik frá efni upphaflegs samnings verið með samþykki ráðuneytisins. Kaupendur hafi greitt fyrir allar þær eignir sem þeir fengu afsal fyrir.

Skipti hf. var kaupandi símans, en stærstu eigendur félagsins voru á þeim tíma Exista og KB banki auk fjögurra lífeyrissjóða og fleiri fjárfesta.