Seðlabanki Íslands greiddi Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits SÍ, átta milljónir króna, auk 60% mánaðarlauna hennar, samkvæmt samningi um stuðning við námsdvöl. Samningurinn hefur verið birtur á vef Seðlabankans.

Í nóvember í fyrra óskaði Ari Brynjólfsson, þá blaðamaður hjá DV en nú Fréttablaðinu, eftir því að fá afrit af téðu samkomulagi en SÍ hafnaði því. Sú niðurstaða var kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem felldi synjunina úr gildi. Bankinn höfðaði mál fyrir héraðsdómi til að fá úrskurðinum hnekkt en laut í gras þar á ný. Sá bankinn þá sæng sína útbreidda og ákvað að birta skjalið opinberlega undir fyrirsögninni „ Upplýsingar um námsstyrk, leyfi og einkamálefni starfsmanns “.

Samningurinn er dagsettur í lok apríl 2016. Samkvæmt því greiddi SÍ styrk vegna skólagjalda við Harvard, ferðakostnaðar og kostnað vegna bóka. Fjórar milljónir króna skyldu greiðast 2016 og aðrar fjórar fyrir árið 2017.

Samkvæmt samningnum myndi Ingibjörg láta af störfum 1. júlí 2016 og næstu tvo mánuði tæki við taka orlofs, ótekins og áunnins, til ágústloka. Eftir það greiddi SÍ henni 60% mánaðarlaun næstu tólf mánuði til loka ágúst 2017.

„Fari svo að Ingibjörg kjósi að starfa á öðrum vettvangi að námi loknu og snúi ekki aftur til starfa hjá bankanum, mun bankinn ekki eiga neina endurkröfu vegna ofnagreinds [sic!] styrks vegna skólagjalda og vegna launa, meðan á námsleyfi stendur. Ingibjörg mun þá formlega segja starfi sínu lausu með 3ja mánaða fyrirvara,“ segir í samningnum. Má ráða af því að um eiginlegan starfslokasamning hafi verið að ræða þó hann hafi verið klæddur í búning samnings um námsleyfi.

Áætla má að heildargreiðslu Seðlabankans vegna samningsins hafi verið um 18 milljónir króna.