PricewaterhouseCoopers ehf. (PWC) og PricewaterhouseCoopers LLP greiddu LBI ehf., slitabúi fallna Landsbankans, 9,5 milljónir dollara gegn því að bótamál á hendur samsteypunni yrði fellt niður. Þetta kemur fram í dómi Landsréttar í máli LBI gegn fyrrverandi stjórnendum félagsins.

Umrætt dómsmál var höfðað af hálfu slitastjórnarinnar til innheimtu skaðabóta en sú vildi meina að annmarkar hefðu verið á endurskoðun félagsins hvað fallna Landsbankann varðar. Sagt hafði verið frá því að umrædd dómsátt hefði verið gerð en ekki hefur komið fram hve há eingreiðslan var.

Fyrir Landsrétti var umrætt samkomulag lagt fram en LBI hafði farið fram á að það yrði aðeins sýnt dómurum málsins í trúnaði. Því hafnaði dómurinn og taldi að skilyrði einkamálalaganna fyrir slíkri meðferð væru ekki uppfyllt.

„Í samkomulaginu kemur fram að aðilar málsins, [LBI og PWC] hafi fallist á lyktir þess gegn tiltekinn eingreiðslu án þess að endurskoðunarfyrirtækin viðurkenndu nokkra ábyrgð og án þess að [LBI] viðurkenndi að höfðun málsins hefði verið tilhæfulaus. Nam greiðslan níu og hálfri milljón bandaríkjadollara,“ segir í dómi Landsréttar.

Á gengi þess dags sem samkomulagið var undirritað, það er 22. febrúar 2017, var andvirði eingreiðslunnar í íslenskum krónum einn miljarður og tæplega 48 milljónum betur. Sama ár nam seld þjónusta PWC ehf. 1.440 milljónm króna en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var það PWC LLP sem innti greiðsluna af hendi. Sambærileg greiðsla var einnig greidd slitabúi Glitnis en ekki hefur komið fram hve há hún var.