Hluthafar rekstrarfélagsins GAM Management (GAMMA) greiddu rúmar 200 milljónir króna fyrir 26,8% hlut MP banka í félaginu, samkvæmt heimildum VB.is. Miðað við það er Gamma metið á rúman milljarð króna. Starfsmenn Gamma voru fyrir viðskiptin meirihlutaeigendur félagsins. Gamma keypti jafnframt eigin bréf af MP banka .

MP banki átti 36,8% hlut í Gamma árið 2011 og var hann þá bókfærður á 176,5 milljónir króna. Bankinn seldi af hlutafjáreign sinni árið 2012 og hefur síðan þá átt 26,8% hlut. Hann var í ársuppgjöri MP banka bókfærður á 178 milljónir króna.

Hluthafar Gamma eru Agnar Tómas Möller og Gísli Hauksson. Fyrir viðskiptin nú áttu þeir sinn hvorn 26% hlutinn. Félagið Straumnes eignarhaldsfélag, sem skráð er á Björg Fenger, á 9,99%, Volga ehf, félag Guðmundar Björnssonar átti 8% og Valdimar Ármann átti 3%. Nýr hluthafi bættist við í dag. Það er Lýður Þ. Þorgeirsson , framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga hjá Gamma.