Lífeyrissjóðir, sjávarútvegsfyrirtæki og fleiri greiddu slitastjórn gamla Landsbankans tugi milljarða króna í uppgjöri á gjaldmiðlaskipta- og vaxtasamningum sem gerðir voru fyrir hrun án þess að þurfa þess. Þetta er fullyrt í netmiðlinum Kjarnanum í dag. Þar segir að í máli gamla bankans gegn Norvik hf í Hæstarétti fyrr í mánuðinum hafi niðurstaðan verið sú að samningarnir hafi verið gerðir á fölskum forsendum og að óþörfu.

Staða afleiðusamninga við þrotabú Kaupþings og Glitnis er með öðrum hætti en hjá gamla Landsbankanum, að því er segir í Kjarnanum.

Miðað við gengisvísitöluna 175 námu skuldir lífeyrissjóðanna við gamla Landsbankann vegna afleiðusamninga um 35 milljörðum króna að teknu tilliti til skuldajöfnunar.

Kjarninn hefur eftir Arnari Sigmundssyni, fyrrverandi formanni Landssamtaka lífeyrissjóða, að mörg lögfræðiálit hafi verið unnin sem öll voru á þann veg að lífeyrissjóðunum bæri að greiða slitastjórn bankans fjárhæðina. Samtökin voru í forsvari fyrir lífeyrissjóðina í samningum þeirra við slitastjórnina um uppgjör á samningunum.

Í umfjöllun Kjarnans um dóm Hæstaréttar í máli slitastjórnar gamla Landsbankanum og Norvik frá 17. október síðastliðinn er hins vegar bent á að sérstaklega hafi verið tekið fram í tilkynningu frá 16. október 2008 hafi verið einhliða yfirlýsing þess efnis að einhliða mátti fella niður afleiðusamningana og lýsa því yfir að framvegis þyrfti hvorki að efna samningana né ætlast til efnda. Með öðrum orðum hafi viðtakendur tilkynningarinnar getið litið svo á að þeir þyrftu ekki að greiða slitastjórn Landsbankans neitt þar sem bankinn væri með tilkynningunni einhliða að fella niðurafleiðusamningana.

Kjarninn segir Landssamtök lífeyrissjóða ætla að ræða Hæstaréttardóminn frekar á næstunni og kanna hvort niðurstaða hans hafi með einhverjum hætti áhrif á hagsmuni lífeyrissjóða er tengjast afleiðusamningum um gjaldmiðla og vexti.

Landssamtök lífeyrissjóða hafa hafnað því sem fram kom í Kjarnanum. Rök samtakanna má lesa hér .