Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir janúar - október 2016 liggur nú fyrir og gefur upplýsingar um afkomu ríkissjóðs á grundvelli innheimtra tekna og greiddra gjalda.

Handbært fé frá rekstri batnaði verulega á milli ára og var jákvætt um 72 milljarða króna samanborið við neikvætt handbært fé upp á 20 milljarða króna árið 2015.

Stöðugleikaframlag skilaði 52 milljörðum

Þetta skýrist að stærstum hluta með tekjum af stöðuleikaframlögum á árinu 2016 sem námu 52 milljörðum króna á tímabilinu.

Handbært fé lækkar um 82,8 milljarða króna samanborið við lækkun um 113,6 milljarða króna á árinu 2015. Afborganir lána á tímabilinu námu 196,4 milljörðum króna.

Um 9% aukning tekna ríkissjóðs milli ára

Ef stöðugleikaframlögin eru dregin frá námu tekjur ríkissjóðs 579,5 milljörðum króna, sem er 8,9% aukning milli ára, en með þeim meðtöldum námu tekjurnar 647,5 milljörðum króna.

Þar af námu skatttekjur og tryggingagjöld 519,8 milljörðum króna, sem er 9,3% aukning milli ára.

Skýrist aukningin af launahækkunum á síðasta ári og í ársbyrjun þessa árs auk aukinnar einkaneyslu. Stór hluti af fráviki skatttekna og tryggingagjalds frá fjárlagaáætlun skýrist af hærri launum og meiri einkaneyslu en var fyrirséð. Voru þau 5,6% hærri en gert var ráð fyrir.