Starfsmenn Silicon Valley Bank (SVB) í Bandaríkjunum fengu greiddan árlegan bónus á föstudaginn síðasta, einungis örfáum klukkutímum áður en stjórnvöld tóku yfir starfsemi bankans, samkvæmt heimildarmönnum Axios.

Bónusgreiðslan var fyrir vinnu á árinu 2022 og hafði verið í vinnslu nokkrum dögum fyrir fall bankans að sögn heimildarmanna CNBC.

SVB bankinn, sem var með höfuðstöðvar í Santa Clara í Kaliforníu, greiddi starfsfólki sínu yfirleitt kaupauka á öðrum föstudegi marsmánaðar. Það vildi svo til að greiðslan fór í gegn á síðasta degi SVB sem sjálfstæður banki.

Ekki er vitað um umfang kaupaukanna en á undanförnum árum hafa þeir náð frá 12 þúsund dölum, eða um 1,7 milljónir króna á gengi dagsins, til 140 þúsund dala, eða nærri 20 milljóna króna, fyrir framkvæmdastjóra.

Af skráðum bandarískum bönkum greiddi SVB hæstu meðallaunin árið 2018 eða um 250 þúsund dali, sem samsvarar 35 milljónum króna í dag, samkvæmt Bloomberg.

Tryggingarsjóður innistæðueigenda í Bandaríkjunum, FDIC, tók yfir starfsemi SVB á föstudaginn. Stofnunin bauð starfsfólki SVB 45 daga launagreiðslu. Bankinn var með tæplega 8.500 starfsmenn á launaskrá í desember.