*

miðvikudagur, 12. ágúst 2020
Innlent 10. janúar 2019 09:25

Greiddu yfir 17 milljarða í arð 2018

Endurkaup fyrirtækja í kauphöllinni á síðasta ári námu ríflega 14 milljörðum en enn hærri upphæð var greidd út í arð.

Ritstjórn
Kauphöllin er til húsa á gatanmótum Laugavegar, Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík.
Haraldur Guðjónsson

Á síðasta ári keyptu félög skráð í kauphöll Nasdaq á Íslandi eigin bréf fyrir samtals 14,3 milljarða og greiddu út 15,6 milljarða í arð að því er Morgunblaðið greinir frá.

Er þetta eilítil aukning á arðgreiðslum frá fyrra ári þegar arðgreiðslurnar námu 14,9 milljörðum króna. Til viðbótar við beinar arðgreiðslur síðasta árs afhenti VÍS hluthöfum sínum bréf í Kviku banka að andvirði 1,8 milljarða króna.

Nú um áramótin var heildarmarkaðsvirði bréfa í kauphöllinni 960 milljarðar króna, svo endurkaupin námu því um 1,5% af markaðsvirði bréfanna, og arðgreiðslurnar 1,6% af markaðsvirðinu.

Ef tekið er tillit til markaðsvirðis bréfanna í Kviku banka er heildararðgreiðsla fyrirtækjanna í kauphöllinni á síðasta ári 17,4 milljarðar og þá er hlutfallið af heildarmarkaðsvirðinu 1,8%.