Ríkisskattstjóri hefur nú lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga, sem tekur mið af tekjum og eignum einstaklinga í lok árs 2013. Framteljendum fjölgar um 1,1% milli ára og eru 268.452 talsins. Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2014 vegna tekna árið 2013 hefur hækkað um 6% frá fyrra ári. Frá þessu er sagt á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Almennur tekjuskattur nemur 112,7 milljörðum króna og er lagður á tæplega 164 þúsund framteljendur. Álagningin hækkar um 8% milli ára og gjaldendum fjölgar um 3,4%. Útsvarstekjur sveitarfélaga nema 148 ma.kr. sem er 6,3% aukning milli ára. Greiðendum útsvars fjölgaði um 1,2% frá fyrra ári.

Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 14,5 ma.kr. og hækkar um 23,7%, þrátt fyrir að breytingin sé mjög mismunandi eftir tegundum fjármagnstekna. Gjaldendum fjármagnstekjuskatts fjölgar um 8% og eru þeir 45 þúsund. Álagning auðlegðarskatts fer nú fram í síðasta sinn. Auðlegðarskatt greiða nú 6.534 aðilar, alls um 6,2 ma.kr., og hækkar um 10,4% milli ára. Viðbótarauðlegðarskattur á hlutabréfaeign nam 4,7 ma.kr. og eykst um 35,3% milli ára.

Eignir aukast en skuldir standa í stað

Framtaldar eignir heimila námu 3.989 ma.kr. í lok árs 2013 og jukust um 3,3% frá fyrra ári. Framtaldar skuldir heimila námu 1.788 ma.kr og standa nánast í stað frá fyrra ári. Skuldir vegna íbúðarkaupa jukust hins vegar um 1,3% milli ára og námu 1.174 ma. kr.

1. ágúst næstkomandi verða greiddir 17,7 milljarðar króna úr ríkissjóði til heimila. Er þar um að ræða endurgreiðslu vegna ofgreiddra skatta, barnabætur eða vaxtabætur.