*

sunnudagur, 7. júní 2020
Innlent 7. apríl 2020 18:22

Greiði 41 milljón vegna læknamistaka

Sönnunarbyrði um tjón vegna uppsetningar á þvaglegg var snúið við Landspítalanum í óhag.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Landspítalinn var með dómi Landsréttar í dag dæmdur til að greiða manni rúmlega 41 milljón króna, auk vaxta frá 2012 og dráttarvöxtum frá 2016, vegna mistaka sem urðu við aðgerð á manninum. Héraðsdómur hafði áður sýknað íslenska ríkið þar sem sönnun um orsök tjónsins lá ekki fyrir. Landsréttur sneri sönnunarbyrðinni aftur á móti við og taldi rétt að spítalinn yrði að bera hallann af sönnunarskortinum.

Árið 2012 fór maðurinn í aðgerð vegna hjartsláttartruflana en eftir hana átti hann erfitt með þvaglát. Fyrsta atrenna uppsetningar þvagleggs gekk ekki sem skyldi og kom blóð út með rásinni þegar leggurinn var dreginn til baka. Óumdeilt var í málinu að við uppsetningu leggsins myndaðist sár í þvagrás mannsins, um 2,5 sentimetrar að dýpt og hálfur millimetri að breidd, og taldi maðurinn að hann hefði orðið fyrir heilsutjóni vegna þess.

Maðurinn var nokkuð verkjaður vegna þessa en verkjaköst gátu staðið frá nokkrum sekúndum og yfir í að vara klukkustundum saman. Auk þess að hann var greindur með áfallastreituröskun og síendurtekið þunglyndi. Samkvæmt mati dómkvadds matsmanns var varanleg örorka mannsins vegna þessa 75% og varanlegur miski 50 stig.

Þrætuefni málsins laut að því hvort um óhappatilvik hefði verið að ræða, og bótaskylda þá ekki fyrir hendi, eða hvort tjón mannsins mætti rekja til gáleysis af hálfu starfsmanns sem kom þvagleggnum fyrir.

Fyrir dómi sagði maðurinn að hann hefði ekki viljað fá þvaglegginn en starfsmennirnir, hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði, sem komu til að setja hann upp hefðu sagt að ekkert annað stæði til boða. Þær hefðu hafist handa en skömmu síðar hefði hann fundið gríðarlegan sársauka, blætt hefði úr getnaðarlim hans og hjúkrunarfræðingarnir hefðu „gníst tönnum“. Hann hefði strax séð á þeim að eitthvað væri að. Móðir mannsins greindi frá því í héraði að hún hefði heyrt hann öskra „nei, nei, nei“ þegar þessi atvik áttu sér stað.

Bar að tilkynna atvikið til Embættis landlæknis

Í dómi Landsréttar segir að ekkert bendi til annars en að nauðsynlegt hafi verið að koma þvagleggnum fyrir í manninum og að ekki geti haft áhrif á mat á bótaábyrgð hvaða stærð af þvaglegg var brúkuð. Vitnisburður sérfræðinga bæri síðan með sér að algengt væri að sár mynduðust við slíka uppsetningu en þau greru vanalega fljótt og örugglega.

Landsréttur rak einnig að samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu ber Landspítalanum að halda úti skrá um óvænt tilvik í þeim tilgangi að finna skýringar á þeim. Það var ekki gert í þessu tilviki en í greinargerð Landspítalans í héraði var fallist á að rétt hefði verið að gera slíkt.

„Með hliðsjón af þeim upplýsingum um heilsufar áfrýjanda sem samkvæmt framansögðu lágu fyrir [...] 2013, [...], er það mat dómsins að eigi síðar en þá hafi í öllu falli borið að skrá það með þeim hætti sem mælt er fyrir um í [lögum]. Upplýst er að það var ekki gert en svo sem áður greinir er það tilgangur slíkrar skráningar að finna skýringar á óvæntum atvikum og tryggja að þau endurtaki sig ekki. Verður að ætla að á þessum grundvelli og svo skömmu eftir að atvikið átti sér stað hefði verið unnt að varpa skýrara ljósi á það þannig að hægt yrði að meta hvort um óhappatilvik eða saknæmt gáleysi hafi verið að ræða. Hefði þá til dæmis verið hægt að fá nánari upplýsingar um atvikið frá þeim sjúkraliða sem allt bendir til að hafi verið viðstaddur uppsetningu þvagleggsins og ganga verður út frá því að hjúkrunarfræðingurinn sem annaðist uppsetninguna hefði þá munað eftir henni, en hún gaf ekki skýrslu fyrir dómi fyrr en rúmum fimm árum eftir hana,“ segir í dómi Landsréttar.

Sökum þeirrar óvissu sem var uppi var sönnunarbyrðinni snúið við og skaðabótaábyrgð felld á Landspítalann.