Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag þá Karl og Steingrím Wernerssyni ásamt Guðmundi Ólasyni til að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða króna.

Eru þeir dæmdir vegna millifærslna sem voru gerðar á reikning Ingunnar Wernersdóttur, systur bræðranna, en þannig létu þeir félagið fjármagna kaup sín á hlutafé Ingunnar í Milestone.

Áður höfðu þremenningarnir hlotið fangelsisdóm vegna viðskiptanna að því er fram kemur í frétt Morgunblaðsins um málið.

Á kostnað hagsmuna félagsins

Á þeim tíma sem greiðslurnar voru framkvæmdar var Guðmundur framkvæmdastjóri Milestone og var hann með prófkúru fyrir félagið, meðan bræðurnir voru eigendur félagsins.

Í dómnum segir að allir þrír hafi samkvæmt stöðum sínum hjá félaginu ótvírætt bakað sér bótaábyrgð því með viðskiptunum hafi þeir ekki leitast við að tryggja hagsmuni félagsins heldur til að afla sjálfum sér ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað þess.

Ingunn var sýknuð af bótaskyldu

Ingunn var hins vegar sýknuð af öllum kröfum um bótaskyldu, en dómurinn hafnar því að greiðslurnar hafi verið lán til hennar, heldur hafi verið að efna kaupsamning um hlutabréf Milestone og dótturfélögum þess.

„Aðilar máls þessa hafa ekki fært sönnur á að atvik hafi verið önnur en hér er lýst,“ segir í dómsorði Héraðsdóms .

„Í þessu ljósi verður að leggja til grundvallar að Milestone ehf. hafi með framangreindum ráðstöfunum verið látið greiða kaupverð hlutabréfanna samkvæmt samningunum 4. desember 2005, sem hafi við kaupin orðið eign stefndu Karls og Steingríms, án þess að leitast væri við að tryggja þá augljósu hagsmuni félagsins að það fengi fjármunina greidda til baka eða að öðrum kosti eitthvert endurgjald er svaraði kaupverðinu.

Breytir engu í því sambandi þó að reynt hafi verið að láta Milestone Import Export Ltd., er laut yfirráðum stefndu Karls og Steingríms, taka á sig skyldu til að greiða Milestone ehf. þessa fjármuni til baka, enda gat krafa Milestone ehf. á hendur því félagi í raun ekki verið neins virði.

Þessar ráðstafanir voru bersýnilega til þess fallnar að afla hluthöfum Milestone ehf., stefndu Karli og Steingrími, ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins, auk þess að fela í sér misnotkun á aðstöðu innan félagsins í viðskiptum með hluti í því og öðrum félögum innan sömu samstæðu.“