*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 22. mars 2021 09:57

Greiði 5,7 milljarða hlut í Sjóva í arð

Síldarvinnslan leggur til við hluthafa að 14,5% hlutur félagsins í Sjóvá verði greiddur út til hluthafa fyrir skráningu á markað.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Jónasson

Síldarvinnslan leggur til við hluthafa félagsins að 100% eignarhlutur í dótturfélaginu SVN eignarhaldsfélagi ehf. verði greiddur í arð til hluthafa. SVN eignarhaldsfélag er stærsti hluthafi Sjóvá með 14,52% hlut sem er metinn á um tæplega 5,7 milljarða króna.

Greidd verða atkvæði um tillöguna á hluthafafundi Síldarvinnslunnar á föstudaginn næstkomandi sem haldinn er í aðdraganda skráningar félagsins á markað í sumar. Í fundarboðinu, sem birt var á fimmtudaginn, segir að hluthafar muni einnig geta farið fram á að arðgreiðslan verði í formi reiðufjár að frádregnum fjármagnstekjuskatti.

Lagðar eru til fleiri breytingar á samþykktum félagsins fyrir skráninguna. Þar á meðal að hluthafar fái forgangsrétt að öllum nýjum hlutum í hlutfalli við skrásetta hlutafjáreign sína við hlutafjáraukningu.

Samherji er stærsti hluthafi með 45% hlut og þá á Kjálkanes ehf. 34% hlut, samkvæmt ársreikningi Síldarvinnslunnar fyrir árið 2019. Kjálkanes er í eigu sömu aðila og eiga útgerðina Gjögur á Grenivík.