App Dynamic ehf. var í Héraðsdómi Reykjaness í síðasta mánuði dæmt til að greiða Garðlist ehf. rúmlega milljón króna skuld, auk dráttarvaxta, sem til var komin vegna uppsetningar á jólaseríum við heimili fyrirsvarsmanns fyrirtækisins. Deilt var um það hvort jólaseríurnar hefðu verið gallaðar eður ei. Dómurinn var birtur í gærkvöld.

Málið var höfðað til greiðslu þriggja reikninga sem til voru komnir við uppsetningu 120 jólasería sem settar voru upp við heimili Pratik Kumar, framkvæmdastjóra App Dynamic, fyrir jólin 2018. Umrædd ljós voru að sögn hans ítrekað að detta út og taldi hann það vera vegna ófullnægjandi frágangs við þær. Garðlist taldi á móti að það væri vegna raflagna í húsinu.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Garðlist setti upp jólaseríur fyrir Kumar en það var einnig gert árin 2014-16. Í ár virkuðu þær ekki sem skildi, slógu út minnst í fjórgang. Fóru starfsmenn fyrirtækisins á staðinn og slógu þeim inn aftur.

Reikningurinn nú var hærri en fyrri ár en Garðlist sagði að eðlilegar ástæður væru fyrir því. Tré í garðinum við húsið hefðu stækkað, beðið hefði verið um seríur í fleiri runna en áður og nauðsyn hafi verið að brúka lyftu við verkið. Þá hafi gjaldskrá einnig hækkað. Að mati fyrirtækisins snerist deilan aðeins um það að fá greitt fyrir þjónustu sem það ynnti af hendi.

App Dynamic neitaði aftur á móti að greiða reikningana þrjá. Jólaljósin hafi ekki virkað sem skyldi og þjónustan hafi ekki verið í samræmi við þá þjónustu sem pöntuð var. Ítrekað hafi það boðist til þess að greiða lægri upphæð sökum þessa en sættir ekki náðst. Því hafi félagið rift kaupunum.

Fyrir dómi kvaðst félagið vera fullvisst um að ástæðan fyrir því að seríurnar voru alltaf að detta út hafi verið sú að frágangur hafi ekki verið fullnægjandi. Aðeins hafi verið notaður vatnsþolinn búnaður en ekki vatnsheldur búnaður með rétta vottun. Sökum vætutíðar hafi lagnir og ljós legið í bleytu og því ekki haldist inni. Nauðsynlegt hefði verið að láta svokallaðan „LED driver“ í vatnsheldan kassa eða hafa hann hangandi. Var sýknu krafist á grundvelli laga um þjónustukaup.

Almennt dýrt en ekki ósanngjarnt miðað við umfang

Í niðurstöðu dómsins segir í fyrsta lagi að lög um þjónustukaup gildi um kaup á þjónustu sem veitt sé neytendum í atvinnuskyni. Þar sem App Dynamic var viðsemjandi Garðlistar en ekki Kumar sjálfur gætu lögin ekki átt við í þessu tilfelli. Þá hefði ekki farið fram mat á því hvort umræddar seríur hefðu verið gallaðar eður ei.

„Fyrirsvarsmaður [App Dynamic] bar fyrir dómi að hafa prófað ýmsar rafmagnsklær utanhúss fyrir rafbíl heimilisins, sem hafi brunnið yfir og rafmagnsleiðslan styst í hvert sinn. Má þannig sjá í gögnum málsins brunna kló utanhúss, sem tengd er rafmagni hússins, sem stefndi bar þó að tengdist ekki sömu rafmagnstöflu og jólaseríurnar. Um það liggur ekkert fyrir og úttekt rafvirkja á tilteknum útitenglum, og upplýsingar um úrkomumagn í Reykjavík í desember 2018, eru ekki nægjanleg sönnun um orsök útsláttarins,“ segir í niðurstöðukafla dómsins.

Dómurinn tók til skoðunar hvort rétt væri að lækka stefnufjárhæðina að einhverju leyti. Sagði þar að óumdeilt væri að jólaseríurnar hafi verið settar upp og í samræmi við það sem hafði verið gert árin á undan. Eftir að seríurnar voru komnar upp í fyrsta sinn hafi Kumar talið þau ósamstæð og því tekin niður og sett upp aftur. Ósannað var að ekki bæri að greiða fyrir þá þjónustu. Vinnustundir samkvæmt reikningunum voru 68,25 klukkustundir.

„Þá er ósannað annað en að [App Dynamic] hafi fengið alla þá þjónustu sem um var samið og hann bað um og getur á umræddum reikningum. Þótt fyrirliggjandi kostnaður við jólaljósaskreytingu myndi í almennum skilningi teljast mikill, þá er ekkert það fram komið í málinu sem sannar að hann sé með hliðsjón af umfangi ósanngjarn,“ segir í niðurstöðunni.

Var App Dynamic því dæmt til greiðslu reikningsins, rétt rúmrar milljónar auk dráttarvaxta, og 963 þúsund krónur í málskostnað.