Björn Ingi Hrafnsson þarf að greiða þrotabúi Pressunnar ehf. 80 milljónir króna auk vaxta og dráttarvaxta. Þetta er meðal þess sem felst í dómi Héraðsdóms Vesturlands uppkveðnum í fyrradag en birtum í dag.

Sem kunnugt er var Pressan, sem meðal annars gaf út Eyjuna, 433 og Bleikt, auk þess að eiga hlut í DV ehf., tekin til gjaldþrotaskipta í árslok 2017. Í byrjun árs hafði hlutafé félagsins verið hækkað með því að umbreyta skuldum í hlutafé.

Í maí 2017 var ætlunin að Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf. gæfi út 185 milljón króna skuldabréf til Pressunnar og var útbúið tryggingabréf sem tók til 200 milljóna króna gefið út af DV ehf. og Vefpressunni ehf. Björn Ingi bar því við fyrir dómi að ekki hafi orðið af umræddu láni en hins vegar hafi tryggingabréfinu ekki verið eytt heldur því þinglýst.

Fimm árangurslaus fjárnám fóru fram hjá Pressunni frá febrúar 2017 til ágúst sama ár. Í júní það ár var gerður lánssamningur milli Pressunnar og Björns Inga þar sem sá síðarnefndi fékk 80 milljónir króna að láni. Lánið bæri að endurgreiða með einni greiðslu ári síðar. Til tryggingar voru lögð að veði allsherjarveð í Pressunni svo og firmanöfnin og vörumerkin Eyjan, 433, Pressan, Bleikt svo og nánar tilteknir útgáfuréttir.

Í september 2017 tók Frjáls fjölmiðlun ehf. yfir tilteknar eigur Pressunnar. Voru þar á ferð vefmiðlar, lén og skrifstofubúnaður en kaupverð var 276 milljónir króna. Þá skyldi Frjáls fjölmiðlun taka yfir áðurnefnt 80 milljón króna skuldabréf Björns Inga. Þá bar Frjálsri fjölmiðlun að gera upp 80 milljóna króna skuldina við Björn Inga.

Kröfurnar 316 milljón krónur

Kröfur í þrotabú Pressunnar námu 316 milljónum króna en þarf af námu forgangskröfur 39 milljónum króna. Við uppkvaðningu úrskurðarins voru til 5,5 milljónir króna á reikningum félagsins. Krafa Tollstjóra í búið nam 54 milljónum króna þrátt fyrir að nýir eigendur rekstrarins hafi greitt 105 milljónir króna til Tollstjóra við yfirtökuna.

Skiptastjóri þrotabúsins sagði fyrir dómi að viðskiptamannayfirlit Pressunnar vegna Björns Inga sýni að framan af árinu 2017 hafi honum verið greiddar töluverðar fjárhæðir vegna endurgreiðslu á lánum. Bókhald félagsins beri þess þó engin merki að félagið hafi skuldað fyrrnefndar 80 milljónir króna. Fyrir dómi var einnig krafist riftunar fyrrgreindra veðsetninga sem og riftun á áðurnefndum lánssamningi.

Í málsvörn Björns Inga kom fram að það hafi blasað við að Pressan stefndi í þrot. Tekist hafi að halda félaginu á floti yfir sumarmánuðina með greiðslum frá honum sjálfum. Björn Ingi hafi í raun um árabil fjármagnað félagið með lánum og persónulegum ábyrgðum. Mánaðarleg greiðsla fyrir sjónvarpsþáttinn Eyjuna, sem sýndur var á Stöð 2, hafi til að mynda runnið beint til félagsins. Fyrir þáttinn fékk Björn Ingi 1,6 milljónir króna hvern mánuð.

Björn Ingi krafðist einnig sýknu á grunni aðildarskorts og taldi að beina hefði málinu að Frjálsri fjölmiðlun. Á það féllst dómurinn ekki. Frjáls fjölmiðlun hafi ekki notið góðs af téðri ráðstöfun heldur í Björn Ingi sjálfur.

Meðal gagna málsins var yfirlit Pressunnar ehf. yfir hreyfingar stefnda sem lánardrottins. Þar kemur fram að 4. janúar 2017 hafi staðan verið núll krónur, en áður höfðu 199.431.999 krónur verið bæði debet-og kreditfærðar. Þá var gerð grein fyrir ýmsum greiðslum frá félaginu til stefnda á tímabilinu janúar til ágúst 2017, þar með talið undir textaskýringunni „Björn Ingi _ endurgr. lán“, „Björn Ingi _ gr.“ og „Björn Ingi“. Af yfirlitinu mátti ráða að degi áður en umrætt lán var veitt hafi Björn Ingi í raun skuldað Pressunni 26,4 milljónir króna.

Ekkert studdi umrædda lánveitingu

Af hálfu skiptastjóra var byggt á því að ekkert hefði bent til þess að Björn Ingi hafi lánað félaginu umrædda fjárhæð en þrátt fyrir það tók Frjáls fjölmiðlun hana yfir. Birni Inga tókst ekki að mati dómsins að sýna fram á með gögnum né vitnisburði vitna að til hennar hefði stofnast.

„[V]erður að leggja til grundvallar að [lánið hafi í reynd ekki verið veitt] þegar kaupsamningur Pressunnar ehf. og Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. var gerður. Kaupverðið hafi því að hluta verið greitt með yfirtöku á skuld, sem ekki var til staðar, og leiddi það til tjóns fyrir [þrotabúið] sem nemur sömu fjárhæð og voru eignir félagsins minni en ella. Með þessu öðlaðist [Björn Ingi] rétt til greiðslu 80 milljón króna frá öðru félagi sem ekki liggur annað fyrir en að hafi verið gjaldfært,“ segir í niðurstöðukafla dómsins.

Að mati dómsins var um örlætisgerning að ræða sem leiddi til þess að eignir búsins rýrnuðu. Það hefði verið hlutverk Björns Inga, sem sat beggja megin borðs við gerð samningsins, að sýna fram á það að ekki hefði verið um gjafagerning að ræða. Sú sönnun hafi ekki tekist.

Með vísan til þess var Björn Ingi dæmdur til að greiða þrotabúinu 80 milljónir króna, yfirtöku Frjálsrar fjölmiðlunar á skuldinni var rift og veðsetningu á eignum Pressunar var aflétt. Milljónirnar bera almenna vexti frá byrjun september 2017 til september 2018 en dráttarvexti frá því tímamarki. Málskostnaður, 1,6 milljónir króna, var einnig felldur á Björn Inga.