Hagnaður Lyfja og heilsu hf. á síðasta ári nam 169 milljónum króna samanborið við 31 milljón króna árið 2010. „Við höfum tekið til í rekstrinum og farið vel með fé,“ segir Karl Wernersson, framkvæmdastjóri og eigandi Lyfja og heilsu.

Það er félagið Aurláki ehf. sem á allt útistandandi hlutafé í Lyfjum og heilsu hf. en það var stofnað af Milestone, fyrirtæki þeirra Karls og Steingríms Wernerssona. Greiddur var 132 milljóna króna arður frá Lyfjum og heilsu til Aurláka vegna ársins 2011.

Karl Wernersson hefur stýrt Lyfjum og heilsu frá árinu 2010. Samkvæmt ársreikningi nema árslaun hans 32 milljónum króna og er hann ekki á launaskrá heldur fær greitt samkvæmt framlögðum reikningi. Aðspurður um ástæðu þess vísaði Karl á endurskoðanda sinn. Sá sagðist bundinn trúnaði..

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.