Volkswagen hyggst ráðleggja hluthöfum sínum að samþykkja rúmlega 10 milljóna evra sáttagreiðslu, jafnvirði 1,5 milljörðum króna, frá fyrrum forstjóranum Martin Winterkorn vegna útblásturshneykslis bílaframleiðandans frá árinu 2015. Financial Times segir frá.

Þýski bílarisinn tilkynnti í mars síðastliðnum að það hygðist sækja bætur frá Winterkorn, sem stýrði fyrirtækinu árin 2007-2015. Hann sagði af sér í september 2015 eftir að upp komst um hugbúnað í rúmlega 11 milljónum VW díselbílum sem hannaður var til að svindla á útblástursprófum. Volkswagen hefur þurft greiða yfir 32 milljarða evra, jafnvirði 4.710 milljörðum króna, í sektir og lögfræðikostnað vegna málsins.

Ákvörðun bílaframleiðandans um að höfða mál gegn Witerkorn var tekin í kjölfar ítarlegrar skýrslu lögfræðifyrirtækisins Gleiss Lutz um útblástursmálið, sem hefur verið kallað „Dieselgate“. Í skýrslunni var komist að þeirri niðurstöðu að æðstu stjórnendur Volkswagen hafi vanrækt skyldur sínar.

Winterkorn hefur sjálfur hafnað ásökunum. Lögfræðingar hans sögðu í mars síðastliðnum að hann hafi gert allt sem krafist var af honum í aðdraganda málsins og ekki sleppt að upplýsa um nein atriði sem hefðu komið í veg fyrir eða dregið úr skaðanum.

Winterkorn stendur einnig frammi fyrir aðskildum kærum og þarf að koma fyrir rétt í Þýskalandi í september næstkomandi.