Bandaríska risafyrirtækið Dow Chemical hefur ákveðið að greiða skaðabætur í hópmálsókn vegna ólöglegrar verðlagningar. Samþykkti fyrirtækið að greiða 835 milljónir dollara í skaðabætur, en málið var komið fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna.

Dómstóll í Kansas hafði dæmt Dow til að greiða 1,06 milljarða dollara í bætur og áfrýjaði fyrirtækið dómnum til Hæstaréttar. Þar var fyrirtækið bjartsýnt á að snúa dómnum sér í vil en sú skoðun breyttist hins vegar eftir sviplegt andlát hæstaréttadómarans Antonin Scalia á dögunum.

Vegna andláts Scalia er nú jafnt á milli íhaldssamra og frjálslyndra dómara og ef jafntefli hefði verið niðurstaðan í áfrýjuninni hefði hinn upprunalegi dómur gilt. Í yfirlýsingu segist Dow því hafa samið vegna þess að líkurnar á vondri niðurstöðu hefðu aukist. Þrátt fyror það væri fyrirtækið algerlega ósammála upphaflegum dómi en taldi best fyrir hluthafa að greiða skaðabætur.