Yfirskattanefnd hefur að hluta til fallist á kæru konu sem fór fram á að snúið yrði úrskurði ríkisskattstjóra um að henni yrði gert að greiða fjármagnstekjuskatt af Bitcoin viðskiptum fyrrverandi eiginmanns síns, á meðan þau voru enn í hjónabandi.

Í úrskurði yfirskattanefndar kemur fram að maðurinn hafi fengið tæplega 4,5 milljónir króna greiddar vegna sölu á Bitcoin árið 2016 og tæplega 11 milljónir árið 2017 sem ekki hefðu verið gefin upp til skatts. Maðurinn vildi þó takmarkaðar upplýsingar veita um á hvaða verði rafmyntin  hefði verið keypt. Í samskiptum við ríkisskattstjóra sagði maðurinn meðal annars: „Ég man ekki einu sinni hvar ég finn upplýsingar um kaup og sölu þannig að þið gerið bara eitthvað við mig ég redda þessu ég er á 45% bótum rúmur 100þ á mánuði haha verð fljótur að borga skattinn upp."

Hjónin skildu að borði og sæng í febrúar 2018 en höfðu „töluvert minni afskipti af hvort öðru", frá miðju ári 2017. Konan sagðist ekki hafa haft vitneskju um rafmyntaviðskipti eiginmanns síns fyrr en ríkisskattstjóri spurði hana út í þau með bréfi í mars 2021 og ekki notið góðs af þeim. Samskipti þeirra hefðu verið stirð á árinu 2017 og hefði maðurinn flutt af heimili þeirra í desember 2017. Hún undraðist því að vera gert að greiða skatt af viðskiptum sem hún kom ekki nálægt. Þá hafði konan verið burðarstólpi í fjármögnun heimilishalds hjónanna. Hún hafi því furðað sig á því hvernig maðurinn hafi geta fjármagnað utanlandsferð og kaup á bíl eftir að þau ákváðu að slíta samvistum árið 2017.

Yfirskattanefnd féllst á með konunni að fella niður ákvörðun ríkisskattstjóra um að henni yrði gert að greiða skatt af sölu ársins 2017, árið sem hjónabandið var að renna út í sandinn. Hins vegar var ekki fallist á að það sama ætti við árið 2016. Hjónin væru samsköttuð og bæru sameiginlega ábyrgð á sköttum sem á væru lagðir á samkvæmt sameiginlegu skattframtali. Þá var ekki heldur fallist á kröfu um að fella niður 25% álag vegna fjármagnstekna ársins 2016.

Þá var konunni gert að greiða allan fjármagnstekjuskatt ársins 2016 af Bitcoin sölu þess árs þar sem hún var tekjuhærri en maðurinn. Er þar vísað til ákvæða laga um tekjuskatt þar sem fram kemur að telja skuli fjármagnstekjur hjóna til tekna hjá þeim aðila í hjónabandinu sem hefði hærri tekjur.