Breyttar áherslur í rekstri Íslandspósts, sem forstjórinn Þórhildur Ólöf Helgadóttir segir frá í viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins , virðast hafa verið fljótar að skila árangri. Árið 2020 skilaði Íslandspóstur 104 milljóna króna hagnaði og í fyrra nam hagnaðurinn 256 milljónum króna. Skuldastaðan hefur einnig batnað. Til marks um það námu vaxtaberandi skuldir Póstsins tæplega 2,7 milljörðum króna í lok árs 2019 en í lok árs 2021 námu vaxtaberandi skuldir rúmum 1,6 milljörðum króna.

Í fjölmiðlum hefur verið bent á að Íslandspóstur hafi á síðustu tveimur árum fengið úthlutað tæplega 1,1 milljarði króna úr ríkissjóði vegna alþjónustubyrði sem hvílir á fyrirtækinu lögum samkvæmt og án þessa framlags liti rekstrarniðurstaðan öðruvísi út. Að mati Þórhildar hefur umræðan þó verið á villigötum, þar sem umrædd greiðsla sé tilkomin vegna þess að ríkið sé einfaldlega að greiða fyrir þjónustu sem Pósturinn veitir fyrir hönd þess.

„Hluti af rekstrarvanda Íslandspósts fólst einmitt í því að ríkið hafði aldrei greitt fyrir þjónustu sem það krafðist af hendi Póstsins. Við veitum ákveðna alþjónustu fyrir hönd ríkisins en það var ekki fyrr en árið 2020 sem ríkið fór að greiða fyrir hana. Þessi greiðsla kemur til vegna póstflutninga okkar á mjög strjálbýl svæði, t.d. Skíðadal, en ekki vegna póstflutnings á höfuðborgarsvæðinu eða Akureyri. Það gætir ákveðins misskilnings í umræðunni um hvað ríkið sé að greiða fyrir í gegnum þessa alþjónustu. Við fáum greiddan frá ríkinu þann hreina kostnað sem við verðum fyrir við það að halda úti póstþjónustu á strjálbýlum svæðum. Ég vil halda því til haga að við fáum ekki greiðslu frá ríkinu fyrir þjónustu sem stendur undir sér."

Alþjónustubyrði Íslandspósts nær yfir landið allt og felur m.a. í sér að þjónustuveitandinn getur farið fram á það við ríkið að það bæti sér óhagræði sem hlýst af því að þjónusta svokölluð „óvirk markaðssvæði". Skilin milli virkra og óvirkra markaðssvæða voru ákveðin af Póst- og fjarskiptastofnun (PFS), sem fór með eftirlit á póstmarkaði þar til Byggðastofnun tók við eftirlitshlutverkinu í nóvember sl. PFS ákvað að skilgreina öll þau markaðssvæði þar sem fjöldi heimila og fyrirtækja er undir 750 sem óvirk markaðssvæði. Miðað við það ríkir samkeppni á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Selfossi, Hveragerði og Vestmannaeyjum. Öll önnur þorp og dreifbýli teljast staðir þar sem samkeppni ríkir ekki.

Þórhildur segir Póstinn á sínum tíma hafa bent PFS á galla þess að afgreiða málið með svo einföldum hætti og nauðsynlegt væri að ráðast í nákvæmari greiningu. Það breytir ekki þeirri staðreynd að Pósturinn fær ekki greiðslu vegna alþjónustu nema vegna reksturs á óvirkum markaðssvæðum sem að öðrum kosti stendur ekki undir sér. Ef reksturinn stendur undir sér greiðir ríkið Póstinum einfaldlega ekki fyrir þjónustuna. „Tökum sem dæmi einstakling sem býr á mjög strjálbýlu svæði og er duglegur að kaupa vörur á netinu sem hann fær svo sendar heim að dyrum frá okkur. Ef tekjurnar sem þessar sendingar koma með inn í kerfið standa undir kostnaðinum sem fellur til við það að koma vörunni á leiðarenda þá greiðir ríkið ekki fyrir það. Allar tekjur sem koma inn á svæðið eru dregnar frá kostnaðinum og ef tekjurnar dekka ekki kostnaðinn þarf ríkið að greiða mismuninn. Svo einfalt er það."

Nánar er rætt við Þórhildi í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .