*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 4. apríl 2019 15:45

Greiðslu frá Kosti til Jóns Geralds rift

Héraðsdómur Reykjaness féllst á kröfu skiptastjóra um riftun á tólf milljóna greiðslu Kosts til Jóns Geralds.

Ritstjórn
Kostur fór á hausinn í desember 2017 eftir að hafa ekki staðið skil á aðflutningsgjöldum.
Gísli Freyr Valdórsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu skiptastjóra félagsins 12.12.2017, sem áður hét Kostur, um að rifta þremur greiðslum sem félagið innti af hendi til félags á vegum Jóns Geralds Sullenberger um mánuði áður en til skipta kom. Taldi dómurinn ljóst að 12.12.2017 hefði verið ógjaldfært þegar greiðslurnar voru inntar af hendi.

Dómurinn hefur ekki verið birtur en sagt er frá honum á vef Fréttablaðsins. Samanlögð fjárhæð greiðslnanna þriggja er tæplega 12 milljónir króna en þær runnu til hins bandaríska félags Nordica Inc. Ber því að endurgreiða upphæðina til þrotabúsins auk vaxta og dráttarvaxta.

Verslunin Kostur var stofnuð árið 2009 en lokaði snögglega í desember 2017 eftir að reksturinn fór á hausinn. Þrotaskiptabeiðni var lögð fram 20. desember sama mánaðar og það tekið til skipta í febrúar árið eftir. Í millitíðinni voru umræddar greiðslur inntar af hendi.

Samkvæmt ársreikningi Kosts fyrir árið 2016 námu skammtímaskuldir 221 milljón króna en skammtímakröfur voru tæpum sextíu milljónum lægri. Í dómi héraðsdóms er vikið að stöðu félagsins og bent á að greiðslurnar geti ekki talist eðlilegar. Eiganda þess, fyrrgreindum Jóni Geraldi, hefði mátt vera ljóst að félagið var ógjaldfært þegar upphæðin var greidd.

Auk þess að þurfa að endurgreiða milljónirnar tólf þurfa Jón Gerald og Nordica að greiða 800 þúsund í málskostnað.

Stikkorð: Gjaldþrot Kostur Jón Gerald