Hagfræðideild Landsbankans telur að greiðslustaða ríkissjóðs hafi farið batnandi á síðustu árum samhliða betri tekjujöfnuði. Þetta kemur fram í nýrri útgáfu Hagsjár, þar sem fjallað er um opinber fjármál.

Í skýrslu hagfræðideildarinnar segir að greiðsluuppgjör ríkissjóðs hafi sýnt fram á tekjujöfnuð sem var jákvæður um 30,4 milljarða króna. Það er nokkuð betri niðurstaða en ráð hafði verið gert fyrir.

Á sama tíma jukust innheimtar tekjur um 10,4 milljarða króna, en greidd gjöld lækkuðu þá um 20 milljarða króna séu endurgreiðslur vegna verðtryggðra húsnæðislána taldar með.

Tekjujöfnuður árið 2010 var neikvæður um 70 milljarða króna, en sé jöfnuðurinn borinn saman við síðasta ár er greinilegt að þróun greiðsluafkomu sjóðsins stefnir í rétta átt.