Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrri helming ársins 2014 liggur nú fyrir og gefur upplýsingar um afkomu ríkissjóðs á grundvelli innheimtra tekna og greiddra gjalda. Uppgjörið var birt á vef Fjármálaráðuneytisins . Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 15,9 ma.kr. en var neikvætt um 13,8 ma.kr. á sama tímabili árið 2013. Innheimtar tekjur hækkuðu um 46,1 ma.kr. milli ára en greidd gjöld jukust um 16,2 ma.kr.

Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 306,3 ma.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins sem er 17,7% aukning frá sama tímabili í fyrra. Niðurstaða tímabilsins er tæplega 32 ma.kr. yfir tekjuáætlun fjárlaga en ef óreglulegir liðir og tekjur af arði eru undanskildar eru tekjurnar 3,6 ma.kr. eða 1,3% undir áætlun.

Virðisaukaskattur yfir áætlun

Skattar á vöru og þjónustu jukust um 5,7% á milli ára og námu samtals 106,3 ma.kr. sem er 0,6 ma.kr. undir áætlun fjárlaga. Virðisaukaskattur, sem vegur mest í þessum flokki skatta, nam 72 ma.kr. sem er 0,5 ma.kr. yfir áætlun fyrir tímabilið og nam aukning hans á milli ára 7,9%. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um tæplega 3%. Almenn vörugjöld eru 0,3 ma.kr. undir áætlun fyrir tímabilið og námu 2,6 ma.kr. sem er aukning um 1,8% frá sama tíma í fyrra. Vörugjöld af ökutækjum námu 2,6 ma.kr. og vörugjöld af bensíni 5,5 ma.kr. en bæði gjöldin eru aðeins undir áætlun á fyrri helmingi ársins

Olíugjaldið er 8,1% yfir áætlun og skilaði 3,2 ma.kr. sem er aukning um 6% á milli ára. Kolefnisgjaldið, sem er 5,5% undir áætlun, skilaði 1,5 ma.kr. sem er aukning um 3,6% á milli ára. Bifreiðagjaldið er 4,6% undir áætlun og nam 3,2 ma.kr. á tímabilinu.

Tekjur af áfengisgjaldi jukust um 8,6%

Tekjur af tóbaksgjaldi jukust um 4,9% frá því í fyrra og námu 2,9 ma.kr. sem er 3,1% yfir tekjuáætlun. Tekjur af áfengisgjaldi jukust um 8,6% á milli ára og námu 5,7 ma.kr. á fyrri helmingi þessa árs sem er 3,7% yfir áætlun. Tölur um tóbakssölu á fyrstu sex mánuðum ársins sýna töluverða aukningu í sölu neftóbaks á milli ára eða tæplega 36% og 6,5% aukningu í sölu á sígarettum (vindlingum). Tóbakssala á árinu 2013 var þó heldur slök sökum „hamsturs“ á vörum í desember 2012 og skýrir það aukninguna milli ára að einhverju leyti. Sala á áfengi hefur einnig aukist lítillega miðað við sama tímabil í fyrra eða um tæplega 3% (mælt í vínanda).

Aðrar tekjur en skatttekjur eru langt yfir áætlun og er frávikið 17,7 ma.kr. fyrir tímabilið en tekjurnar námu samtals 44,6 ma.kr. Arður frá Landsbankanum sem greiddur var í mars skýrir frávikið en hann nam 19,7 ma.kr. Veiðigjaldið skilaði 3,3 ma.kr. og er frávik þess miðað við áætlun enn neikvætt síðan í janúar, sem nemur 14%. Þar af nam almenna veiðigjaldið 1,9 ma.kr. og það sérstaka 1,4 ma.kr. Líklegt er að um hliðrun milli mánaða sé að ræða miðað við upphaflega mánaðadreifingu og að frávik í veiðigjaldi muni fara minnkandi þegar líður á árið.

Útgjöld til almennrar þjónustu námu samtals 71,1 ma.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 69,6 ma.kr. á síðasta ári sem er minna en gert hafði verið ráð fyrir. Fjármagnskostnaður ríkissjóðs skýrir stærstan hluta þessara útgjalda eða rúmlega 64%, en hann nam um 45,8 ma.kr. á tímabilinu og var svipaður og á fyrra ári og í samræmi við það sem gert hafði verið ráð fyrir. Útgjöld vegna utanríkismála námu 5,3 ma.kr. samanborið við 4,8 ma.kr. á fyrra ári sem er minna en gert hafði verið ráð fyrir. Af þessum útgjöldum námu útgjöld sendiráða Íslands 1,6 ma.kr. og útgjöld vegna alþjóðastofnana 1,5 ma.kr

Útgjöld til heilbrigðismála jukust milli ára

Útgjöld til heilbrigðismála námu 67,9 ma.kr. og jukust um 4,7 ma.kr. milli ára. sem er jafnframt um 2,7 ma.kr. umfram það sem gert var ráð fyrir. Útgjöld vegna lyfja og lækningavara námu 9,5 ma.kr. samanborið við 9,1 ma.kr. 2013 sem er nokkuð umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir og skýrist alfarið með halla á þeim rekstri sjúkratrygginga sem snýr að lyfjakaupum. Útgjöld vegna heilsugæslu námu 13,5 ma.kr. samanborið við 12,6 ma.kr. 2013. Greiðslur Sjúkratrygginga vegna heilsugæsluþjónustu námu 6,4 ma.kr. og útgjöld Heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu námu 2,5 ma.kr. Útgjöld vegna sjúkrahússþjónustu námu 29,4 ma.kr. samanborið við 27,1 ma.kr. 2013.

Útgjöld til menntamála námu 29,1 ma.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins og voru svipuð og á árinu 2013 en heldur lægri en gert hafði verið ráð fyrir. Útgjöld vegna framhaldsskólastigs námu 10,1 ma.kr. og voru nokkuð lægri en gert hafði verið ráð fyrir sem skýrist að mestu með lægri launaútgjöldum vegna verkfalls framhaldsskólakennara á tímabilinu. Útgjöld vegna háskólastigs námu 16,8 ma.kr. samanborið við 16,5 ma.kr. á fyrra ári sem var lítillega innan þess sem gert hafði verið ráð fyrir.

Lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs

Hreinn lánsfjárjöfnuður ársins var jákvæður um 3,7 ma.kr. en á sama tíma í fyrra var hann neikvæður um 32,4 ma.kr. Brúttó var lánsfjárjöfnuðurinn neikvæður um 49,4 ma.kr. en var neikvæður um 120,5 ma.kr. á sama tímabili 2013.

Afborganir og uppgreiðslur á lánum námu 53,1 ma.kr. þar sem afborganir af innlendum lánum ríkissjóðs námu 27,6 ma.kr. og af erlendum lánum 25,4 ma.kr.

Heildarlántökur á tímabilinu námu um 38 ma.kr. sem skýrast alfarið af innlendum lántökum. Handbært fé ríkissjóðs lækkaði um 11,4 ma.kr. á tímabilinu.