*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 11. nóvember 2021 09:51

Greiðslubyrði lækkað um 27% frá 2019

Í greiningu Viðskiptaráðs segir að vextir og ráðstöfunartekjur virðist hafa haft mest að segja um hækkanir íbúðaverðs undanfarið.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ef tekið er tillit til lækkunar vaxta og hækkunar ráðstöfunartekna hefur greiðslubyrði íbúðalána lækkað um 27% frá árinu 2019. Vextir og ráðstöfunartekjur virðast því hafa haft mest að segja um hækkanir íbúðaverðs að undanförnu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu Viðskiptaráðs á fasteignamarkaði. Í greiningunni hefur ráðið tekið saman hvað hefur verið að gerast á fasteignamarkaði að undanförnu, með því að setja spár í samhengi og skoða hátíðnigögn.

Í greiningunni segir jafnframt að aukinn sparnaður og breytt neyslumynstur landsmanna í kjölfar heimsfaraldursins virðist hafa haft áhrif til hækkunar hér á landi, líkt og erlendis. Svo virðist sem dregið hafi úr íbúðaskorti frá árinu 2019 en horfurnar nú séu þó tvísýnni og skortur gæti verið að aukast á ný. Mikilvægt sé því að skorti, sé hann til staðar, verði mætt jafnt og þétt.

Hækkandi ásett verð og lítið söluframboð bendi til þess að íbúðaverð kunni áfram að hækka hratt næstu mánuði. Þá varpi sviðsmyndagreining ljósi á greiðslubyrði í nýlegum spám. Þróun vaxta og ráðstöfunartekna muni, líkt og áður, hafa mikil áhrif á verðþróun næstu árin.

Nánar má fræðast um málið í greiningu Viðskiptaráðs. Jafnframt mun Viðskiptaráð standa fyrir morgunfundi kl. 9 í fyrramálið þar sem Karlotta Halldórsdóttir, hagfræðingur hjá HMS, og Konráð Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, munu rýna í stöðuna á fasteignamarkaði, ræða greininguna sem fjallað er um hér að ofan og svara spurningum áhorfenda.