Hinn almenni launþegi þarf að inna af hendi langflestu vinnustundirnar í hverjum mánuði á höfuðborgarsvæðinu til að eiga efni á að koma sér þaki yfir höfuðið. Greiðslubyrði húsnæðislána er á hinn bóginn minnst á Vestfjörðum. Íbúðaeigendur á landinu vinna almennt tæplega sjö daga í hverjum mánuði fyrir húsnæðislánin sín í fjölbýli en tæplega tvær vinnuvikur fyrir lán í sérbýli.

Viðskiptablaðið tók saman hvar þarf að vinna lengst og skemmst á landinu til að hafa efni á eigin íbúð. Samantektin byggir á útreikningum á hlutfalli sem sýnir hversu margar klukkustundir einstaklingur með dæmigerðar tekjur í 42 stærstu bæjarfélögum landsins þarf að vinna til að geta greitt mánaðarlega af hefð­bundnu Íslandsláni. Um 90% landsmanna búa í þessum bæjarfélögum. Útreikningarnir taka mið af miðgildi ráðstöfunartekna og meðalkaupverði húsnæðis í hverjum þéttbýliskjarna fyrir sig, auk forsendum um lántökuform. Gert er grein fyrir aðferðafræðinni á bak við útreikninganna neðst í fréttinni.

Niðurstöðurnar úr samantektinni eru birtar í kortinu hér að ofan og í töflunni. Á kortinu hefur hvert bæjarfélag tvær súlur sem sýna greiðslubyrði fyrir íbúð í fjölbýli annars vegar og í sérbýli hins vegar. Eftir því sem súlan er hærri er greiðslubyrðin þyngri; eftir því sem hún er lægri er greiðslubyrgðin léttari. Taflan dregur saman niðurstöðurnar. Litrófin eru eins konar hitamælir fyrir greiðslubyrði; rauður og gulur merkir þyngri greiðslubyrði en blár merkir léttari. Hlutfallið í töflunni sýnir hversu mikið lengur einstaklingur vinnur fyrir sérbýli en fjölbýli á hverjum stað. Niðurstöðurnar gefa vísbendingu um stöðu fasteignamarkaðarins, tekjujöfnuð, greiðslubyrði húsnæðislána og lífsgæði á mismunandi stöðum á landinu.

Greiðslubyrði húsnæðislána
Greiðslubyrði húsnæðislána
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Seltjarnarnes dýrasta svæðið

Þegar litið er til einstakra landshluta vinna einstaklingar mest fyrir húsnæðislánin sín á höfuðborgarsvæðinu. Að vegnu meðaltali (þ.e. að teknu tilliti til stærðar hvers bæjarfélags út frá íbúafjölda) þarf að vinna 59,5 klukkustundir á höfuðborgarsvæðinu til að borga mánaðarlega greiðslu af láni fyrir meðalíbúð í fjölbýli. Jafngildir það tæplega átta heilum vinnudögum í hverjum mánuði. Fyrir sérbýli á höfuð­ borgarsvæðinu þarf að vinna að jafnaði rúmlega 101 klukkustund á mánuði eða 13 vinnudaga. Þess má geta þarf almennt að vinna 1,5-sinnum meira fyrir sérbýli heldur en fjölbýli á landinu öllu.

Á höfuðborgarsvæðinu – og á landinu öllu – vegur greiðslubyrðin þyngst á Seltjarnarnesi. Þar þarf að vinna yfir 78 klukkustundir á mánuði til að geta greitt af láni fyrir meðalíbúð í fjölbýli en 133 klukkustundir fyrir íbúð í sérbýli. Í sérbýli jafngildir það að einstaklingur með rúmlega 335 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði vinni rúmlega sautján heila vinnudaga í mánuði til að eiga efni á eigin húsnæði. Skemmstan tíma tekur að vinna fyrir íbúð í Hafnarfirði, eða 55 klukkustundir í fjölbýli en 92 í sérbýli. Í Reykjavík þarf að vinna yfir 58 klukkustundir fyrir íbúð í fjölbýli en tæplega 102 klukkustundir fyrir íbúð í sérbýli.

Greiðslubyrði húsnæðislána
Greiðslubyrði húsnæðislána
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Þess má geta að sex af þeim tíu stöðum þar sem greiðslubyrði húsnæðislána er mest er á höfuð­borgarsvæðinu, en þar búa um 64% landsmanna. Í fjölbýli og sérbýli er greiðslubyrðin þannig þyngst í Seltjarnarnesi, svo Garðabæ, Kópavogi, Reykjavík og Mosfellsbæ. Á eftir höfuðborgarsvæðinu er greiðslubyrðin síð­an þyngst í Hveragerði, Akureyri, Grindavík og Stykkishólmi fyrir fjölbýli, en fyrir sérbýli er það Akureyri, Njarðvík, Akranes og Selfoss.

Greiðslubyrði á Íslandi er næst­ þyngst á Norðurlandi. Þannig þarf að vinna í 36 klukkutíma á mánuði á Norðurlandi til að greiða niður lán fyrir íbúð í fjölbýli, en rúmlega 59 tíma fyrir íbúð í sérbýli. Greiðslubyrðin er langmest á Akureyri en minnst í Ólafsfirði.

Aðferðafræðin:

  • Gögn yfir miðgildi ráðstöfunartekna fyrir árið 2016 voru fengin hjá Hagstofu Íslands í þeim þéttbýliskjörnum sem telja yfir 500 íbúa. Reiknað var miðgildi ráðstöfunartekna á hverja unna klukkustund í hverju bæjarfélagi fyrir sig. Þar var lagður til grundvallar meðalfjöldi vinnustunda á ári, sem var rúmlega 2.012 klukkustundir árið 2016, sem jafngildir 38,7 vinnustundum á viku og 7,7 vinnustundum á dag miðað við fimm daga vinnuviku.
  • Gögn yfir meðalkaupverð á íbúðum fjölbýli og sérbýli í bæjarfélögunum voru fengin hjá Þjóðskrá Íslands, en ekki liggja fyrir gögn yfir miðgildi húsnæðisverðs. Aðeins var miðað við bæjarfélög þar sem þrír samningar lágu á bak við meðalkaupverðið í hið minnsta. Þannig urðu Vopnafjörður, Eyrarbakki, Seyðisfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður og Hvammstangi úti fyrir fjölbýli.
  • Næst voru forsendur gefnar um mánaðarlegar greiðslur af húsnæðislánum miðað við meðalkaupverð húsnæðis í hverju bæjarfélagi fyrir sig. Miðað var við fyrstu greiðsluna á verðtryggðu jafngreiðsluláni til 40 ára, svokölluðu Íslandsláni. Þau eru algengustu húsnæðislánin í landinu. Útreikningar á fyrstu greiðslunni samkvæmt hefðbundinni formúlu fyrir greiðsluflæði jafngreiðsluláns miðuðust við 75% veðhlutfall, 2,5% verðbólguvæntingar og 3,8% fasta vexti (meðaltal lægstu skráðra vaxta á verðtryggðum íbúðalánum á síðasta ári hjá bönkunum og lífeyrissjóðunum). Ekki var gert ráð fyrir greiðslugjaldi, lántökukostnaði eða stimpilgjaldi í útreikningunum.
  • Að lokum var mánaðarlegri greiðslu af húsnæðisláni deilt í miðgildi ráðstöfunartekna á hverja vinnustund í hverju bæjarfélagi fyrir sig. Úr fékkst fjöldi klukkustunda sem „launamaðurinn í miðjunni“ þarf að vinna á mismunandi stöðum á landinu til að geta greitt mánaðarlega af húsnæðisláni sínu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .