Að mati Seðlabanka Íslands gæti sú leið að allur gjaldeyrir föllnu bankanna sem fengist fyrir erlendar eignir yrði seldur til Seðlabanka íslands á hagstæðu gengi fyrir íslenska þjóðarbúið jafngilt skatti á erlendar eignir. Bankinn segir að huga þurfi vel að þeirri lagalegu áhættu sem gæti fylgt leiðinni en gjaldeyririnn yrði aftur seldur til erlendra kröfuhafa bankanna með því markmiði að losa um svokallaða snjóhengju aflandskróna.

Fjallað er um málið í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag en blaðið hefur undir höndum svör Seðlabankans við fyrirspurnum efnahags- og viðskiptanefndar um málið. Í svörunum kemur fram að aðgerðir sem þessar kynnu að vekja ýmsar lagalegar spurningar, meðal annars varðandi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands. Slík leið yrði tæpast réttlætt nema með tilvísun til neyðarréttar.

Bankinn segir að kostir og gallar þessarar leiðar verði skoðaðir í tengslum við skoðun á áhrifum úrlausnar þrotabúa á greiðslujöfnuð Íslands og möguleika til losunar hafta.

Kaupþing hefur lagt fram drög að nauðasamningi til Seðlabankans en Glitnir tilkynnti nýverið að gerð nauðasamninga hafi verið frestað. Nokkur umræða hefur verið um áhrif nauðasamninga á gengi krónunnar og hag þjóðarbúsins. Fram kemur í frétt Morgunblaðsins að í svörum Seðlabankans segir  að arðgreiðslur úr búum gömlu bankanna við mögulega nauðasamninga gætu orðið samningsatriði milli Seðlabankans og slitastjórna. Ítrekað er að engar undanþágur verði veitta nema tryggt sé að stöðugleika verði ekki ógnað.