Þær greiðslur sem lögfræðingar í slitastjórnum fá frá kröfuhöfum föllnu bankanna kalla á skýringar. Þetta segir Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við lagadeild HÍ og ritstjóri Tímarits lögfræðinga, í ritstjórapistli í nýjasta tölublaði Tímaritsins.

Hafsteinn vekur athygli á því að samkvæmt kröfuhafaskýrslu vegna Kaupþings frá 20. nóvember síðastliðnum mun hver og einn slitastjórnarmeðlimur hafa rukkað 32.500 krónur fyrir hverja vinnustund, án virðisaukaskatts. Þeir tveir meðlimir slitastjórnarinnar sem eru með hæsta endurgjaldi unnu að meðaltali 184-188 tíma á mánuði ásamt því að sinna öðrum krefjandi störfum samhliða.

Hafsteinn Þór gefur lítið fyrir þær skýringar að kröfuhafar hinna föllnu banka séu flestir erlendir aðilar sem kippi sér varla upp við að greiða reikninga sem Íslendingum finnist háir. Ekki sé heldur hægt að bera þessar greiðslur til slitastjórnarmanna saman við greiðslur til lögmanna í fjármálahverfinu City í Lundúnum.

„Hinir íslensku slitastjórnarmeðlimir eru ekki lögmenn í City. Þeir eru íslenskir sérfræðingar starfandi fyrir íslensk félög. Þá eru þeir ekki ráðnir til starfa af erlendum kröfuhöfum bankanna, heldur skipaðir til starfans af héraðsdómi. Raunar er taxti umræddra lögmanna í Lundúnum svo yfirgengilega hár að samanburður við þá er ekki bara óeðlilegur fyrir íslenska lögfræðinga, heldur fyrir flesta lögfræðinga álfunnar. Og ekki er víst að það sé íslenskri lögfræðingastétt til heilla að draga í auknum mæli dám af starfssystkinum sínum í Lundúnum í stað þess að líta t.d. til Norðurlandanna um samanburð og fyrirmyndir,“ segir Hafsteinn.

Þá segir Hafsteinn að mikilvægt sé að halda því til haga að sú staðreynd að kröfurhafar hinna föllnu banka séu erlendir gæti aldrei réttlætt að innheimt væri fyrir fleiri vinnustundir en raunverulega væru inntar af hendi, eða að óþörfum tíma væri eytt í mál til þess eins að geta skráð aukinn fjölda vinnustunda á háu tímagjaldi.

Hafsteinn segir að það hvernig lögfræðingar leysi störf sín af hendi í uppgjöri hrunsins varði stéttina alla. Enda muni starfshættirnir ráða miklu um hvort lögfræðingar njóti trausts og veðri áfram falið að sinna mörgum af mikilvægustu og vandasömustu verkefnum samfélagsins. Þeir verði því að vinna öll sín störf af fagmennsku og heiðarleika.