Dynamic Technology Equipment er fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á búnaði fyrir iðnað. Stofnendur fyrirtækisins eru þeir Sveinn Hinrik Guðmundsson og Karl Ágúst Matthíasson, en þeir hafa mikla reynslu af allskyns tækni og verkfræðistörfum í áliðnaði.

Búnaðurinn sem Dynamic Technology Equipment stefnir á að framleiða á næstu mánuðum, á að efnagrein ál samstundis. Öll álver þurfa að efnagreina vörurnar sínar, til þess að tryggja það að viðskiptavinir þeirra fái ál sem uppfyllir gæðakröfur. Sveinn segir DTE geta aðstoðað iðnaðinn verulega.

„Hingað til hafa menn þurft að taka sýni og greina álið á föstu formi á rannsóknarstofum. Tækni DTE á að auðvelda þetta til muna. Með því að skjóta ljósi á bráðið ál fá menn niðurstöður. Þannig geta framleiðendur samstundis séð hvort álið uppfyllir allar óskir.“

Varan þeirra byggir á svokallaðri ljósatækni, en auk þess þarf að sérsmíða mikið af mekanískum búnaði. Þar sem ál bráðnar við 660,3 gráður á celsíus, þurfa tækin og tólin að þola háan hita. Öll hönnun og forritun fer fram innanhúss, en DTE lætur Rennilist ehf. sjá um alla renni- og fræsivinnu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .