Kristbjörg Kristjánsdóttir, þróunarstjóri Viðskiptaferða Úrvals útsýnar (VÚÚ), sem er í raun deild innan ferðaskrifstofunnar, segir að deildin hafi verið til í mörg ár. Starfsemin hafi vaxið hratt fram að hruni en síðan hafi hún dregist saman eins og raunin hafi verið hjá flestum fyrirtækjum landsins. Hún segir að starfsemin sé aftur að aukast.

„Við erum að stækka aftur enda sjáum við að það er að rofa til í efnahagslífinu og það er auðvitað lykillinn að því að við stækkum. Það er gríðarleg reynsla í deildinni hjá okkur en við erum samanlagt með yfir 90 ára reynslu í þessum geira.“

„Við skipuleggjum ferðir fyrir íslensk fyrirtæki og einstaklinga. Mest eru þetta ferðir til Evrópu en einnig lengra eins og til Asíu og í raun út um allan heim ef því er að skipta. Við erum með hagstæða samninga við ýmis flugfélög eins og til dæmis Etihad og Emirates og síðan erum við stærsti söluaðili Icelandair. Við státum okkur að því að vera með pottþétta þjónustu. Við svörum samdægurs og erum með neyðarsíma sem okkar viðskiptavinir geta hringt í allan sólarhringinn, til dæmis ef þeir þurfa að láta breyta flugmiðanum sínum.“

Kristbjörg segir að nú sé að fara í gang vinna við að greina þarfir viðskiptavinanna sem sé liður í að bæta þjónustuna. Hún segir að þetta sé bæði gert með því að leggja könnun fyrir viðskiptavini og með því að senda starfsmann út í fyrirtækin til að greina ferðamenningu þeirra og hvernig hún sé að breytast. Hún segir að vonir séu bundnar við að þessi vinna hjálpi VÚÚ að finna nýjar lausnir í ferðamálum enda kalli aukin umsvif íslenskra fyrirtækja á slíkt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .