Aðstæður á fjármálamarkaði hafa batnað enn frekar á yfirstandandi ári frá árinu á undan, að því er segir í formála aðstoðarseðlabankastjóra, Arnórs Sighvatssonar, í Fjármálastöðugleika Seðlabankans, sem kom út í dag. Greina megi hins vegar fyrstu merki þess að spenna sé aftur að myndast í þjóðarbúskapnum og mikilvægt að fjármálafyrirtæki slaki ekki á árvekni sinni og að sterkur grunnrekstur þeirra verði í ríkari mæli en áður forsenda góðrar afkomu þeirra.

Hann segir að undir lok þessa árs muni efnahagsbati hafa staðið yfir í 5 ár samfleytt. Á þeim tíma hafi flestir vísar efnahagslífsins og forsendur fjármálastöðugleika færst í betra horf. Efnahagsreikningar fjármálafyrirtækja, heimila, fyrirtækja og þjóðarbúsins í heild hafi smám saman orðið eðlilegri og eru enn að styrkjast og einfaldast. Segja megi að á síðasta ári hafi sú sjaldgæfa staða verið uppi að hafi innri og ytri stöðugleiki í þjóðarbúskapnum samtímis; lítil verðbólga, framleiðsla nálægt getu og nokkur viðskiptaafgangur.

Hins vegar megi sjá fyrstu merki þess að spenna sé aftur tekin að myndast í þjóðarbúskapnum sem gæti orðið uppspretta efnahagslegs óstöðugleika og áhættu í fjármálakerfinu þegar skyggnst sé lengra fram á veginn. „Er þá einkum horft til framvindunnar á vinnumarkaði, hækkunar fasteignaverðs og fyrstu merkja um aukið innstreymi erlends fjármagns. Hættan er þó ekki enn orðin mikil og nægt svigrúm er til þess að bregðast við því sem gæti verið í aðsigi. Að auki felur sterk eiginfjárstaða fjármálafyrirtækja í sér að viðnámsþróttur þeirra ætti að vera góður næst þegar gefur á bátinn. Í júnílok nam eiginfjárstaða stóru bankanna þriggja 26,6% af áhættugrunni.

Áhættan sem nærtækast er að bregðast við á þessu stigi snertir þó ekki ofangreinda áhættuþætti. Enn er verið að glíma við fortíðarvanda sem felst í því að stór hluti krafna erlendra aðila á innlenda eru skammtímakröfur sem ætla má að séu kvikar í eðli sínu en hafa frá nóvembermánuði 2008 verið hnepptar í fjármagnsfjötra. Framundan eru aðgerðir sem ætlað er að leysa úr þessum vanda, þ.e.a.s. nauðasamningar slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja og útboð fyrir eigendur svokallaðra aflandskróna, þar sem þeir þurfa að velja á milli útgöngu eða bindingar til lengri tíma. Takist þessar aðgerðir eins og til er ætlast verður hægt að losa um fjármagnshöftin fljótlega í kjölfarið án óhóflegrar áhættu.

Aðgerðirnar munu hins vegar reyna töluvert á starfandi fjármálafyrirtæki, einkum lausafjárstöðu þeirra. Þau ættu hins vegar að vera almennt vel í stakk búin til þess að standast þá áraun og í kjölfarið yfirgefa hið verndaða umhverfi fjármagnshafta sem fyrirtækin hafa búið við undanfarin ár, enda er eiginfjárstaða þeirra sterk. Ofangreindar aðgerðir, losun fjármagnshafta og fyrstu merki um vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum marka skýr kaflaskil í umhverfi fjármálafyrirtækja. Þegar öryggisneti fjármagnshaftanna sleppir er mikilvægt að fjármálafyrirtækin varðveiti viðnámsþrótt sem byggst hefur upp á undanförnum árum. Þau þurfa líka að búa sig undir að starfa innan ramma strangara alþjóðlegs og innlends regluverks en þau gerðu árin fyrir fjármálahrunið.“

Í þessu ljósi segir aðstoðarseðlabankastjóri mikilvægt að fjármálafyrirtækin slaki ekki á árvekni sinni. Hagnaður þeirra á undanförnum árum hafi að verulegu leyti verið drifinn áfram af endurheimtum umfram væntingar í kjölfar fjármálahrunsins. Ekki sé að vænta umtalsverðs frekari bata úr þeirri átt til framtíðar. Sterkur grunnrekstur verði því í ríkari mæli en áður forsenda góðrar afkomu sem varðveiti viðnámsþróttinn. Grunnreksturinn hafi verið að styrkjast en enn séu tækifæri til hagræðingar. Takist vel til muni næsta niðursveifla fara mildari höndum um heimilin, atvinnulífið og fjármálalífið en sú sem á undan sé gengin.