Tölvupóstsamskipti milli helstu stjórnenda FL Group sýna að eignir sem settar voru inn í Northern Travel Holding (NTH) í lok árs 2006 voru vísvitandi ofmetnar til að sýna fram á blekkjandi eignarstöðu á efnahagsreikningi þeirra félaga sem að viðskiptinum komu.

Á meðal þeirra eigna sem færðar voru þangað yfir voru danska flugfélagið Sterling og Iceland Express. Stjórnendurnir lögðu einnig mikla áherslu á að viðskiptin myndu „meika sens út á við“.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinaflokki um NTH-viðskiptin sem Viðskiptablaðið mun birta á næstu þremur vikum. Fyrsti hluti hans mun birtast í fyrramálið.

Greinarflokkurinn byggir á gögnum sem voru afrituð í ítarlegri húsleit sem starfsmenn skattrannsóknarstjóra framkvæmdu í höfuðstöðvum FL Group, sem þá hafði tekið upp nafnið Stoðir, þann 11. nóvember 2008. Þar var lagt hald á ýmiskonar bókhaldsgögn, kaupsamninga, viðskiptaáætlanir, samkomulög og aragrúi tölvupóstsamskipta afrituð. Um er að ræða hundruð blaðsíðna af trúnaðargögnum.

Viðskiptablaðið hefur hluta af umræddum gögnum undir höndum og byggir umræddan greinarflokk á þeim.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í ítarlegum greinarflokk í Viðskiptablaðinu sem kemúr út á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .