Danska flugfélagið Sterling vakti fyrst athygli hérlendis þegar  Fons, eignarhaldsfélag í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, keypti það á fjóra milljarða króna í mars 2005. Sterling var síðan rekið með um hálfs milljarða tapi á fyrri hluta þess árs, sameinað öðru óarðbæru flugfélagi. Maersk Air,  í júlí og selt í október, sjö mánuðum eftir að Fons hafði upphaflega keypt félagið.

Ekki er talið að Fons hafi greitt neitt eiginlegt kaupverð fyrir Maersk, enda voru fyrri eigendur áfjáðir að losna við það vegna slælegs rekstrargengis.

Sá sem keypti Sterling í október 2005 var FL Group. Kaupverðið var 15 milljarðar króna. Um 11 milljarðar króna voru greiddir í peningum, en afgangurinn í hlutabréfum í FL Group. Almenningshlutafélagið greiddi því 11 milljörðum hærra verð fyrir Sterling en Fons hafði greitt rúmu hálfu ári fyrr. Það eina sem Sterling hafði gert í millitíðinni var að tapa hálfum milljarði króna og sameinast öðru verðlausu flugfélagi.

FL greiddi fyrir kaup Fons á Sterling

Í apríl 2010 steig Ragnhildur Geirsdóttir, sem var forstjóri FL Group þegar félagið keypti Sterling, fram og sagðist telja að FL Group hafi að öllum líkindum greitt þrjá af þeim fjórum milljörðum króna sem Fons var sagt hafa greitt fyrir Sterling í mars 2005. Umræddir þrír milljarðar króna höfðu verið lagðir inn á reikning FL Group hjá Kaupþingi í Lúxemborg, að frumkvæði Hannesar Smárasonar, en horfið þaðan án tilhlýðilegra skýringa. Í yfirlýsingu Ragnhildar segir að henni hafi borist útprentun úr excel-skjali frá Kaupþingi í Lúxemborg þar sem „fram komu upplýsingar sem mátti skilja sem svo að peningarnir hefðu á einhverjum tímapunkti, í einhverjum tilgangi, verið millifærðir á Fons.“  Bæði Hannes Smárason, þáverandi stjórnarformaður FL Group, og Pálmi Haraldsson höfðu áður ítrekað neitað að FL Group hefði fjármagnað kaup Fons á Sterling.

Peningarnir skila sér til baka

Milljarðarnir þrír skiluðu sér loks aftur inn á reikning FL Group í júlí 2005 eftir mikinn þrýsting frá Ragnhildi og nokkrum stjórnarmönnum í félaginu á Hannes um að féð fengist til baka. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Hannesi hafi verið hótað að málið yrði sent til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórar til rannsóknar sem fjárdráttur ef féð myndi ekki skila sér til baka.

Hætti vegna Sterling

Ragnhildur sagði starfi sínu lausu síðar á árinu 2005 þegar kom í ljós að FL Group ætlaði að kaupa Sterling af Fons á 15 milljarða króna. Hún var enda í hlutverki áhorfanda í þeim viðskiptum, þrátt fyrir að vera forstjóri félagsins.

_____________________________

Ítarlega er fjallað um málið í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins þar sem fyrsti hluti úttektar um NTH viðskiptin birtist. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .