Tölvupóstsamskipti milli helstu stjórnenda FL Group sýna að eignir sem settar voru inn í Northern Travel Holding (NTH) í lok árs 2006 voru vísvitandi ofmetnar til að sýna fram á blekkjandi eignarstöðu á efnahagsreikningi þeirra félaga sem að viðskiptinum komu. Auk þess var lagt mikil áhersla á að viðskiptin þyrftu að líta út fyrir að „meika sens út á við.“ Á meðal þeirra eigna sem færðar voru þangað yfir voru danska flugfélagið Sterling og Iceland Express.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinarflokki um NTH-viðskiptin sem Viðskiptablaðið mun birta á næstu þremur vikum. Fyrsti hluti hans mun birtist í gær. Sá næsti mun birtast næstkomandi fimmtudag.

Hluti póstanna mun verða birtur á heimasíðu Viðskiptablaðsins á næstu dögum.

Tölvupóstur 2.

Frá: Jóni Sigurðssyni

Sendur: 15. nóvember 2006 klukkan 10:33

Til: Hannesar Smárasonar

Afrit til: Einars Þorsteinssonar

Efni: Scantravel

Aðalatriðið er hvernig partur af seljendaláninu okkar verður meira senior. Við erum alveg með jafngóða samningsaðstöðu og PH þar sem hann skuldar okkur 5,8 ma.kr.

Mikilvægt er að þetta meiki líka sens út á við.

Heyri í þér.

Kv.,

JS

Skuld Pálma Haraldssonar við FL Group, sem Jón minnist á í póstinum, var tilkomin vegna ákvæðis sem átti að tryggja endurgreiðslu á hluta kaupverðsins á Sterling ef félagið næði ekki fyrirfram ákveðnum rekstarmarkmiðum á árinu 2006. Sterling var langt frá því að ná þeim markmiðum. Hefði Northern Travel Holding-viðskiptin ekki gengið í gegn fyrir lok árs 2006 hefði endurgreiðsluákvæðið orðið virkt. Þau voru tilkynnt til Kauphallarinnar 26. desember 2006, fimm dögum fyrir áramót. Í þeim samningum sem gerðir voru við það tækifæri var endurgreiðsluákvæðið fellt út gildi. FL Group tók því þátt í viðskiptafléttu sem varð til þess að Pálmi Haraldsson greiddi félaginu ekki sex milljarða króna sem hann ella hefði þurft að greiða því. FL Group var á þessum tíma almenningshlutafélag.