Af samskiptum stjórnenda FL Group er ljóst að mikill vilji skapaðist hjá þeim þegar leið að haustinu 2005 að kaupa flugfélagið Sterling af Fons. Lítið fer þó fyrir rökstuddum viðskiptalegum ástæðum fyrir kaupunum í samskiptunum og virðast þau fremur snúast um að finna leiðir til að réttlæta kaupin út á við. Það stóð enda til að greiða um 11 milljörðum króna hærra verð fyrir Sterling en Fons hafði greitt rúmu hálfu ári fyrr. Það eina sem Sterling hafði gert í millitíðinni var að tapa hálfum milljarði króna og sameinast öðru verðlausu flugfélagi.

Efnahagsreikningur Maersk „lagaður“

Flugfélagið sem rennt var inn í Sterling hét Maersk Air og hafði glímt við mikla rekstarörðugleika. Að kvöldi  1. október 2005 sendi Jón Sigurðsson, þá framkvæmdastjóri hjá FL Group og síðar forstjóri félagsins, tölvupóst til Ragnhildar Geirsdóttur, þáverandi forstjóra FL Group, Þorsteins Arnar Guðmundssonar, sem síðar varð forstjóri Northern Travel Holding, og fleiri lykilmanna innan FL Group. Í viðhengi póstins var minnisblað, kallað „Memo-Thorshammar-050930.doc“.

Í minnisblaðinu segir orðrétt: „Sterling er keypt fyrir DKK 400 milljónir og Maersk er keypt fyrir DKK 275 milljónir[...] Ég leiði að því líkum að til að þetta kaupverð næðist hefur A.P. Moeller þurft að koma með innspýtingu fjármagns (bæði cash og hlutafé) til að „laga“ til þann efnahagsreikning sem verið var að kaupa.“

Við gjaldþrot Sterling kom fram að sameiginlegt tap Sterling og Maersk á árinu 2005 hefði numið meira en  800 milljónum krónum danskra, eða um átta milljörðum króna á þáverandi gengi. Samt sem áður hækkaði virði félagsins um 11 milljarða króna í augum stjórnenda FL Group og Fons.

Hannes og Pálmi á næturfundi

Kaup FL Group á Sterling voru ákveðin á kvöldfundi þann 16. október 2005. Þar hittust tveir menn, Hannes Smárason og Pálmi Haraldsson, og gengu frá helstu atriðum samkomulags um kaupin. Samkomulagið gekk undir nafninu „FL Midnight“. Í tölvupósti sem Hannes sendi til Jóns Sigurðssonar hjá FL Group klukkan 22:49 að kvöldi þess dags segir orðrétt um Sterling-viðskiptin að „hér er staðan eftir kvöldfund með pálma.“ Með fylgir síðan skjal með upptalningu atriða sem þurfti að ganga frá svo að hægt væri að klára viðskiptin. Hannes var búinn að gera rauðar athugasemdir við flest atriðin og samkvæmt þeim stóð fátt lengur í vegi fyrir því að klára kaupin.

_____________________________

Ítarlega er fjallað um málið í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins þar sem fyrsti hluti úttektar um NTH viðskiptin birtist. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .