Robert Wade, prófessor við London School of Economics, segir í grein sem birtist í Financial Times í dag að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eigi við vandamál að stríða.

Wade segir að sterkur orðrómur sé um að Samfylkingin muni slíta samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn og knýja fram kosningar.

Wade hefur komið hingað til lands oftar en einu sinni, og talaði meðal annars á morgunverðarfundi viðskiptaráðuneytisins 22. ágúst á síðasta ári.

Að sögn Wade hefur orðstír Samfylkingarinnar ekki skaðast jafn mikið og Sjálfstæðisflokksins í yfirstandandi fjármálakreppu, og þess vegna gæti fylgi flokksins í nýjum kosningum orðið nægilega mikið til að mynda ríkisstjórn með einum af minni flokkunum.

Grein Wade fjallar í meginatriðum um íslenskt efnahagslíf, einkavæðingu bankanna og erlenda fjárfestingu þeirra.

Í viðtali við Viðskiptablaðið þann 19. september síðastliðinn sagði hann meðal annars að núverandi fjármálakerfi héldi ekki vatni, og að fórnarkostnaðurinn við fjármálakreppu væri of mikill til að borgaði sig að halda í það.

Grein Wade má lesa hér.