Greinendur Lehman Brothers segja olíuverð vera komið úr öllu samhengi og segja að það muni leiðrétta sig snögglega. Þeir líkja hækkun olíuverðs við netbóluna sem sprakk árið 2001. Í skýrslu greinenda Lehman Brothers segir að þeir búist við því að olíuverð hrökkvi til baka fyrir lok þessa árs. Þeir telja að hráolíuverð, sem nú er rúmlega 127 Bandaríkjadalir á tunnu, geti hrökkvið niður í 90 Bandaríkjadali á tunnu á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

Hins vegar búast höfundar skýrslunnar við því að verðið fari meira upp áður en það fer aftur niður. „Líkt og í netbólunni verða ákveðin hlutabréf vinsæl, fjöldi greinenda á Wall Street hækka spár sínar fyrir þau bréf trekk í trekk og þá hækkar olíuverð. Þessar spár þeirra hafa að hluta verið ábyrgar fyrir því mikla fjármagni sem hefur streymt í þennan hluta markaðarins og hafa ýtt verðinu í óraunhæfar hæðir,“ segir í skýrslunni.

Olíuverð hefur lækkað tvo daga í röð, einkum vegna þess að Bandaríkjadalur hefur styrkst.