Hagstofan hefur birt Hag veiða og vinnslu , hið árlega yfirlit sitt um rekstur í helstu greinum sjávarútvegsins þar sem byggt er bæði á skattframtölum og reikningum sem fyrirtæki hafa sent Hagstofunni.

Hreinn hagnaður í sjávarútvegi árið 2018 varð, samkvæmt árgreiðsluaðferð Hagstofunnar, 26,9 milljarðar króna. Þetta nemur 12,2 prósentum af tekjum fyrirtækjanna í heild en árið 2017 var hagnaðurinn 7,1 prósent og hafði þá lækkað um helming frá árinu 2016 þegar hann var 14,4 prósent.

Hagnaðurinn er því á uppleið á ný eftir að hafa minnkað verulega tvö ár í röð.

Hann vex bæði í veiðum og vinnslu, og mest í botnfiskvinnslunni þar sem hagnaðurinn fór úr 9,1 prósenti árið 2017 í 12,6 prósent árið 2018. Í uppsjávarveiðum fór hagnaðurinn úr 3,7 prósentum í 7,6 prósent en í botnfiskveiðum úr 3,9 prósent í 6,4 prósent.

Frystiskip hagnast mest
Mestur varð hagnaður ársins 2018 varð síðan hjá frystiskipum á botnfiskveiðum, eða 13,7 prósent. Minnstur varð hann hjá bátum á botnfiskveiðum, eða 2,6 prósent.

Á árunum 2012 til 2017 fór hagnaður nánast aldrei undir 10 prósent í neinum flokki greinarinnar.

Árgreiðsluaðferðin snýst um að svonefnd árgreiðsla er dregin frá vergri hlutdeild fjármagns, eða EBITDA. Árgreiðslan nemur 28,6 milljörðum króna.

Ef miðað er við hefðbundna uppgjörsaðferð í bókhaldi fyrirtækja varð hreinn hagnaður 2018 25,4 milljarðar eða 11,5 prósent.

„Munurinn ef einhver er, stafar meðal annars af því að beinna áhrifa af breytingum á gengi við mat á fjármagnskostnaði gætir ekki þegar árgreiðsluaðferðin er notuð,“ segir Hagstofan.

700 milljarða eignir
Heildareignir sjávarútvegs í árslok 2018 voru rúmar 709 milljarðar króna, heildarskuldir rúmir 412 milljarðar og eigið fé tæpir 297 milljarðar.

Verðmæti heildareigna hækkaði á árinu um rúm 10 prósent en skuldir hækkuðu um sama hlutfall, eða 10 prósent.

Meðalaldur báta og skipa er 21 ár, en meðalaldur báta sem eru stærri en 200 tonn sker sig mjög úr því meðalsmíðaár þeirra er 2017. Alls falla 60 bátar undir þennan flokk en heildarfjöldi báta og skipa var 1.145 árið 2018. Þar af eru 14 frystitogarar, 31 ísfisktogari og 19 uppsjávarveiðiskip.

Þá greinir Hagstofan frá því að afkoma smábáta hafi batnað frá árinu 2017. Alls voru 773 smábátar að veiðum og öfluðu tæplega 23 þúsund tonna að verðmæti rúmlega 4,8 milljarða.

445 á strandveiðum
Strandveiðar voru stundaðar á árinu 2018 af 445 af þessum 773 bátum, og flestir voru þeir minni en 10 brúttótonn. Afli þeirra var um 9.800 tonn og aflaverðmætið tæplega 2,2 milljarðar.

Samkvæmt útreikningum Hagstofunnar varð EBITDA strandveiðanna, eða hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt, einnig nefnt „verg hlutdeild fjármagns“, 17,6 prósent árið 2018. EBITDA annarra báta undir 10 tonnum á almennum veiðum var 19,9 prósent.

Hagstofan birtir núna í fyrsta sinn núna er birt rekstraryfirlit báta í stærðarflokknum 10 til 30 brúttótonn og voru þeir 194 talsins. Þessir bátar voru með um 1.254 milljónir í hreinan hagnað á árinu 2018 og veiddu samtals 67.500 tonn.

Einungis tvö uppsjávarfrystiskip frystu meira en 50 prósent af uppsjávarafla sínum og eru upplýsingar um þann flokk ekki birtar sér að þessu sinni, þar sem Hagstofan hefur þá reglu að birta ekki ársreikninga skipa fyrir minna en þrjú skip i úrtaki.

Samtekt Hagstofunnar er byggð er á úrtaki sem nær til fyrirtækja sem eru með um 86 prósent heildarveltu greinarinnar, en niðurstöðurnar eru síðan færðar yfir á sjávarútveginn í heild miðað við upplýsingar frá Fiskistofu.