Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir að grein sem Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, skrifaði um rekstur og starfsemi Íslandspósts í Viðskiptablaðið 16. júlí sl., sé uppfull af stóryrðum og rangfærslum sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Þetta segir hann í aðsendri grein sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag.

Í grein sinni gagnrýndi Ólafur meðal annars fjárfestingar Íslandspósts í samkeppnisrekstri sem væri „allsendis óskyld kjarnastarfsemi fyrirtækisins“. Lengi vel hefðu ársreikningar Íslandspósts sýnt hagnað af einkaréttarstarfsemi fyrirtækisins en tap af samkeppnisrekstrinum.

Undanfarin ár hafi hins vegar vantað lögbundna sundurgreiningu á afkomu mismunandi rekstrarþátta fyrirtækisins í ársskýrslurnar vegna ágreinings Íslandspósts og Póst- og fjarskiptastofnunar um bókhaldsaðferðir og mat á kostnaðargrunni fyrirtækisins. PFS hafi meðal annars hafnað „leiðréttingarfærslum“ Íslandspósts, þar sem kostnaður upp á hundruð milljóna hafi verið færður af samkeppnisrekstrinum yfir á einkaréttarhlutann.

Íslandspóstur ekki fjárfest í óskyldum rekstri

Ingimundur segir meðal annars að Ólafur hafi meðal annars staðhæft að Íslandspóstur hefði reynt að sýna fram á verri afkomu einkaréttarstarfseminna en raunin sé. Það sé ekki rétt, og vísar Ingimundur í því skyni til yfirlits Póst- og fjarskiptastofnunar frá 30. júní, þar sem fallist sé á það sjónarmið Íslandspósts að fullnægjandi forsendur hafi verið fyrir a.m.k. 300 milljóna króna leiðréttingartilfærslum frá samkeppnisrekstri félagsins yfir til einkaréttarþáttarins vegna ársins 2011.

Þá segir Ingimundur að það sé rangfærsla hjá Ólafi þegar hann staðhæfir að Íslandspóstur hafi fjárfest í óskyldum rekstri. Út af fyrir sig sé þó ekkert sem banni slíkar fjárfestingar, en Íslandspóstur hafi eftir sem áður aðeins fjárfest í starfsemi sem stjórnendur þess hafi talið tengda og til þess fallna að styðja við kjarnastarfsemi félagsins.

Starfsmenn sakaðir um að rangfæra bókhald

„Að loknum lestri á grein framkvæmdastjóra FA stendur eftir sú áleitna spurning: Hver er hinn raunverulegi tilgangur skrifa höfundar? Á samandregnu formi má segja um efni greinarinnar, að þar sé annars vegar fullyrt um nið­ urstöður eða málsatvik í málum sem eru til meðferðar hjá eftirlitsstofnunum og dómstólum og varða ágreining aðildarfélags FA við Íslandspóst, og hins vegar er greinin uppfull af stóryrðum og rangfærslum sem eiga sér enga stoð í veruleikanum,“ skrifar Ingimundur.

Hann segir að fullyrt sé að skilyrði laga og reglna varðandi rekstur séu ekki uppfyllt. Í því sambandi sé gengið svo langt að saka starfsmenn Íslandspósts um að rangfæra bókhald til þess að sýna fram á verri afkomu einkaréttarhlutans.

„Í því sambandi er rétt að hafa í huga, að Íslandspóstur hefur ávallt verið undir sérstöku opinberu eftirliti, m.a. vegna þess að hluti af starfsemi félagsins nýtur einkaréttar, eins og áður hefur verið vikið að. Þá blasir við að hagsmunum tiltekinna aðildarfyrirtækja FA og fyrirtækja tengdum þeim væri efalaust betur borgið ef Íslandspóstur hyrfi af markaði eða yrði seldur tilteknum aðilum. Af þessum sökum er mjög mikilvægt að fá fram, hver hinn raunverulegi tilgangur skrifa framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda er,“ segir Ingimundur að lokum.

Grein Ingimundar má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.