Fátt hefur breyst frá síðasta stýrivaxtafundi Seðlabankans í desember. Enn eru horfur á lækkandi verðbólgu, lágu fjárfestingarstigi, háu atvinnuleysi og litlum hagvexti á þessu ári. Þá stefnir allt í að Seðlabankinn lækki hagvaxtarspá sína enn á ný vegna óvissu í tengslum við framkvæmd í Helguvík (sem þýðir 1% minni hagvöxt á árinu 2012).

Greiningardeild Arion banka Spáir að hinir virku vextir í dag, þ.e. veðlánavextir og hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum lækki um 50 punkta við næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands nk miðvikudag. Veðlánavextir fara þá úr 4,5% í 4%. Þá er spáð að innstæðuvextir lækki um 25 punkta. Vextir á innstæðubréfum fara úr 4,25% í 3,75% og innstæðuvextir lækka úr 3,5% í 3,25%.

„Fátt hefur breyst frá síðasta stýrivaxtafundi Seðlabankans í desember. Enn eru horfur á lækkandi verðbólgu, lágu fjárfestingarstigi, háu atvinnuleysi og litlum hagvexti á þessu ári. Þá stefnir allt í að Seðlabankinn lækki hagvaxtarspá sína enn á ný vegna óvissu í tengslum við framkvæmd í Helguvík (sem þýðir 1% minni hagvöxt á árinu 2012),“ segir í spánni.

„Hagvísar gefa því tilefni til áframhaldi á lækkun stýrivaxta, en nafnvextir eru um þessar mundir í sögulegu lágmarki (hið sama gildir þó ekki um raunvexti). Hinsvegar liggur fyrir að „yfirvofandi“ afnám gjaldeyrishaftanna setur Peningastefnunefndinni þrengri skorður (sem endranær) og einhver óvissa ríkir því hversu stórt skref nefndarmenn eru tilbúnir að taka í ljósi þessa á fundinum 2.febrúar nk.

Greiningardeild telur að Seðlabankinn muni áfram þrengja vaxtaganginn, þ.e. þrengja bilið milli hæstu og lægstu vaxta Seðlabankans, til að draga úr sveiflum markaðsvaxta en inni í þessum vaxtagangi liggja millibankavextir. Við teljum hins vegar að Peningastefnunefnd muni ákveða að draga úr hraða vaxtalækkunar á meðan beðið er eftir að áætlun liggi fyrir um afnám hafta auk þess sem krónan hefur veikst undanfarið (sjá umfjöllun hér að neðan).“

Áætlun um afnám hafta og veiking krónunnar helstu atriði

„Það er einkum tvennt sem nefndin mun staldra við að þessu sinni, en það er í fyrsta lagi sú vitneskja að áætlun um afnám hafta á að liggja fyrir í lok febrúar og í öðru lagi sú staðreynd að krónan hefur veikst milli funda sem gæti því kallað á aukna verðbólgu á næstu mánuðum.

Afnámið - Þar sem „stóra planið“ um afnám gjaldeyrishaftanna á að liggja fyrir í lok febrúar er ekki ólíklegt að Peningastefnunefndin stígi varlega til jarðar á jafnframt þeirra síðasta fundi fyrir þann tímapunkt. Enda yfirlýst stefna að fara með heldur hærri stýrivexti inn í afnámsferlið heldur en ekki. Þetta eitt og sér eykur líkurnar á því að dregið verði úr hraða vaxtalækkunarferlisins strax á næsta fundi – og gæti niðurstaðan því orðið vonbrigði hjá sumum.

Krónan – Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi hefur krónan veikst um ríflega 4%. Þessi veiking krónunnar gæti haft áhrif á ákvarðanir nefndarmanna, enda stendur skýrt í yfirlýsingu Peningastefnunefndar;

„eitthvert svigrúm til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds að því gefnu að gengi krónunnar haldist stöðugt eða styrkist og að verðbólga hjaðni“ .

Nú reynir kannski á í fyrsta skipti fyrir alvöru hvað felst í þessum orðum, allavega út frá gengissjónarmiðinu. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan hefur krónan styrkst nánast samfellt á milli funda frá lokum ársins 2009 (og lítið mánuðina þar á undan). Peningastefnunefnd hefur því blessunarlega ekki þurft að taka gengisveikingu krónunnar með í reikninginn þegar vextir hafa verið ákvarðaðir.

Má segja að ofan á plön um afléttingu hafta bætist óvissan af gengisveikingu við næstu vaxtaákvörðun og því skyldi ekki vanmeta möguleikann á minni vaxtalækkunum.

Framhaldið: Verðbólguhorfur eru góðar – sem skapar svigrúm til lækkunar

Dregið hefur úr aðhaldi peningastefnunnar á flesta mælikvarða frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi -mismikið þó eins og sést á myndinni hér að neðan. Hins vegar er aðhaldsstigið (að meðaltali 4% raunstýrivextir) enn allt of hátt miðað við stöðuna í íslensku efnahagslífi. Þetta hefur Seðlabankastjóri t.a.m. bent á og telur hann raunstýrivexti á bilinu 2-2,5% vera of háa.

Eins og við bentum á hér að framan þá er verðbólgan að ganga hratt niður og útlit fyrir að hún haldist undir verðbólgumarkmiði á árinu, lítil umsvif eru í fjárfestingu hér innanlands og allt útlit fyrir að batinn í hagkerfinu verði veikari og komi síðar en áður var talið. Við þetta bætast svo tafir (eða stopp) á framkvæmdum í Helguvík – sem þýðir að Seðlabankinn þarf að lækka hagvaxtarspá sína um 1% á næsta ári – m.ö.o. að slakinn verður enn meiri en áður var talið.

Í ljósi þessa telur Greiningardeild að vaxtalækkunarferlinu ljúki ekki á þessum fundi og að eitthvert svigrúm sé enn til staðar til vaxtalækkana á næstu fundum (+50 pkt. til viðbótar). Þetta atriði veltur þó að stærstu leyti af því hvernig mögulegur tímarammi á afnámi hafta verður settur upp. Verði ákveðið að taka stórvægileg skref í afnámi hafta á næstu mánuðum (sem við teljum ólíklegt) er væntanlega lítið svigrúm til frekari vaxtalækkana.“