Af öllum sólarmerkjum að dæma mun lægðin í efnahagslífinu verða dýpri og lengri en Seðlabankinn reiknaði með fyrir fáeinum mánuðum. Svo virðist sem  bæði einkaneysla og fjárfesting verði veik áfram og flestar vísbendingar fyrir seinni helming þessa árs benda niður – s.s. hvað varðar veltu í smásöluverslun, væntingar almennings og atvinnuleysi.

Þetta segir í Markaðspunkti greiningardeildar Arion banka.

Segir að allt bendi till þess að hagvaxtarspá seðlabankans verði lækkuð í næstu Peningamálum sem koma út 3. nóvember næstkomandi. „Jafnframt liggur því fyrir að töluvert rúm er fyrir frekari vaxtalækkanir og raunar má nú fella dóm um að það hafi verið mistök hjá Seðlabankanum að hafa ekki lækkað vexti hraðar miðað við hvað samdrátturinn virðist ætla að vera mikill.“

Greiningardeildin spáir „aðeins“ 50 punkta lækkun vaxta á næsta stýrivaxtafundi þann 3. nóvember næstkomandi.

Óvíst með framhaldið

„Framhaldið er síðan óvíst. Það sem heldur aftur af frekari vaxtalækkunum er yfirvofandi afnám hafta- eins og svo oft hefur komið fram. Þetta títtnefnda afnám hefur hins vegar verið yfirvofandi í nær tvö ár og það er ekkert sem bendir til þess að áætlun eða tímalína muni liggja fyrir um það bráðlega. En Greiningardeild telur ekki líklegt að stýrivextir bankans fari neðan við 5% að svo komnu máli.“