Greiningardeild Arion banka gaf í gær út nýtt virðismat á fasteignafélaginu Reginn sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Virðismat greiningardeildarinnar gefur verðið 14,0 krónur á hlut sem er nokkru hærra en gengi bréfa félagsins í dag og í útboði Landsbankans sem lauk í gær. Virðismat greiningardeildarinnar hækkar um 20 aura frá síðasta mati. Gengi bréfa Regins er nú 12,95 krónur á hlut.

Greiningardeildin mælti með kaupum í útboði Landsbankans en 25% hlutur bankans var þar til sölu. Samþykkt voru tilboð á bilinu 12,2-12,8 á hlut sem öll voru því undir virðismati Greiningardeildar Arion banka.

Að þessu sögðu þá kemur fram ákveðin gagnrýni í virðismati greiningardeildarinnar. Til að mynda segir að félagið sé að taka miklum breytingum og því er afkoma og efnahagsreikningur félagsins ekki nærri eins fyrirsjáanleg og ætti að vera undir stöðugri kringumstæðum. Sama gildir um þær upplýsingar sem fjárfestar hafa úr að moða við að meta virði félagsins. Greiningardeildin telur að Reginn ætti að upplýsa um kaupverð eigna á sama tíma og upplýst er um vænt áhrif á afkomu. Einnig mætti félagið upplýsa markaðinn nánar um hvenær vænt áhrif á afkomu koma fram.

Einnig segir að félagið sé full skuldsett fyrir íslensku hagsveifluna en samt sem áður er mælt með kaupum í félaginu.