Snorri Jakobsson, fyrrum forstöðumaður greiningardeildar Capacent, hyggst halda greiningarstarfsemi sinni áfram, en hún lagðist niður eftir gjaldþrot félagsins. Nýja félagið, sem mun sinna sambærilegri starfsemi og áðurnefnd greiningardeild, mun bera heitið Jakobsson Capital.

Snorri telur þennan hluta reksturs Capacent hafa verið góðan. Starfsemi nýja félagsins verður með sama sniði og áður fyrr, þar sem Snorri mun halda áfram að einbeita sér að verðmötum og greiningu fyrir viðskiptavini.

Að eigin sögn hefur Snorri nú þegar tryggt sér viðskiptamenn þar sem honum hefur tekist að halda í nær alla fyrri viðskiptavini Capacent. Það verður því ekki mikil breyting á starfseminni þrátt fyrir að hún fari undir nýtt félag.

Snorri segist áhugasamur um útgáfu á bæði verðmötum og greiningu um íslenska markaðinn á ensku, þar sem mikill skortur sé á slíku efni. Það hefur hins vegar reynst erfitt í gegnum tíðina að fjármagna slíkt verkefni.

Félagið er ekki enn komið á laggirnar en til að byrja með mun Snorri sinna starfinu einn. Ekki er ljóst, að svo stöddu, hvort einhverjir samstarfsaðilar eða fleiri starfsmenn munu koma að rekstrinum í framtíðinni. Verið er að vinna í heimasíðu fyrir félagið.