Greining Glitnis gerir ráð fyrir að mánaðarleg verðbólga taki við sér á nýjan leik eftir gengislækkun á undanförnum vikum.

Þannig muni vísitala neysluverðs (VNV) hækka um 1,6% milli júní og júlí en þá gerir Greining Glitnis einnig ráð fyrir því að hækkun VNV í ágúst og september verði einnig töluverð.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

Gangi spáin eftir mun ársverðbólga mælast 14,3% í júlí og ná hámarki í 15,6% í ágúst.

Greining Glitnis segir helstu orsökina vera gengislækkun krónunnar „en verð á erlendri mynt hefur hækkað um nálægt 7%, samkvæmt gengisvísitölu, frá því síðasta verðbólguspá var unnin,“ segir í Morgunkorni.

„Aðrir þættir hafa einnig áhrif og má þar nefna mikla eldsneytisverðshækkun erlendis. Á móti gengisáhrifum vega áhrif vegna sumarútsölu en líklegt er að þau verði meiri í ár en undanfarin ár vegna þess að verðmæling fer fram á öðrum tíma mánaðarins núna,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.

Segja verðbólguna hjaðna hratt á næsta ári

Þá spáir greiningadeildin því að verðbólgan muni hjaðna hratt á næsta ári og telur upp nokkra þætti er munu valda því.

„Hratt mun draga úr innlendum kostnaðarþrýstingi á seinni hluta þessa árs og eftirspurn mun að sama skapi minnka. Þegar horfur á erlendum lánsfjármörkuðum batna má reikna með að það muni leiða til styrkingar krónunnar og þar með að verð innfluttrar voru muni heldur lækka,“ segir Greining Glitnis.

„Einnig mun kostnaður vegna húsnæðis leiða til lækkunar VNV. Nokkur óvissa ríkir um verðþróun hrávöru en við gerum ráð fyrir skaplegum verðbreytingum á næsta ári. Þegar allt er samantalið reiknum við með að verðbólga verði tæplega 13% í upphafi næsta árs en að hún hjaðni hratt, nái verðbólgumarkmiðinu á 3. ársfjórðungi og verði 1,2% í lok árs.“