Greining Glitnis gerir ráð fyrir að lítillega dragi úr ársverðbólgu í september en að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 1,1% frá fyrri mánuði.

Þá verði hækkun VNV í október töluvert minni eða 0,5% og enn minni í síðustu tveimur mánuðum ársins.

Gangi spáin eftir mun ársverðbólga mælast 14,3% í september og vera þar með komin yfir toppinn á þeim kúf sem náði hámarki í ágúst.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

Greining Glitnis segir áframhaldandi verðhækkun innfluttrar vöru vegna gengislækkunar fyrr á árinu vera helsta áhrifaþáttinn til hækkunar VNV í september.

„Áhrifa vegna þess að sumarútsölum er lokið mun gæta af fullum krafti í þessum mánuði en þeirra mun einnig gæta lítillega í október. Við reiknum með að gengisáhrif á verð fatnaðar verði sterk þetta haustið. Húsnæðisverð lækkaði minna á sumarmánuðum en við gerðum ráð fyrir en við eigum von á að sjá lækkun nafnverðs húsnæðis á haustmánuðum. Eldsneytisverð í september lækkar lítillega frá fyrri mánuði,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Verðbólga hjaðnar hratt á næsta ári

Þá spáir Greining Glitnis því að verðbólgan hjaðni hratt á næsta ári vegna samspils nokkurra þátta.

„Hratt dregur úr innlendum kostnaðarþrýstingi á seinni hluta þessa árs og eftirspurn minnkar hratt að sama skapi. Þegar horfur á erlendum lánsfjármörkuðum batna að nýju má reikna með að það leiði til styrkingar krónunnar og að verð innfluttrar vöru muni heldur lækka í kjölfarið. Einnig mun kostnaður vegna húsnæðis leiða til lækkunar VNV bæði vegna nafnverðslækkunar en einnig vegna vaxtalækkunar á íbúðalánum og þar með lægri fjármögnunarkostnaði eigin húsnæðis. Nokkur óvissa ríkir um verðþróun hrávöru en við gerum ráð fyrir skaplegum verðbreytingum á næsta ári. Þegar allt er samantalið reiknum við með að verðbólga verði nálægt 12% í upphafi næsta árs  og hjaðni hratt þegar líður á árið. Við spáum að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist á 3. ársfjórðungi og að verðbólga verði nálægt 1% í lok árs,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.