Greining Glitnis gerir ráð fyrir að mánaðarleg verðbólga aukist enn í ágúst og að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 1,1% frá fyrri mánuði. Þá gerir greiningardeildin jafnframt ráð fyrir að hækkun VNV í september verður einnig töluverð.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

Gangi spáin eftir mun ársverðbólga mælast 14,8% í ágúst og ná hámarki í þeim mánuði.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að í september fari svo að draga úr verðbólgunni og mánaðarverðbólga í október verði tiltölulega lítil.

„Helsta orsök þess að verðbólgan tók við sér á nýjan leik á sumarmánuðum er vegna gengislækkunar krónunnar fyrr í sumar,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.

„Húsnæðisverð virðist einnig lækka minna á sumarmánuðum en við gerðum ráð fyrir. Á móti vegur að eldsneytisverð á heimsmarkaði hefur lækkað á nýjan leik og er það helsta ástæða þess að verðbólga á 3. ársfjórðungi verður ekki eins mikil og útlit var fyrir á tímabili.“

Þá kemur fram í Morgunkorni að áhrifa vegna sumarútsölu muni gæta bæði í ágúst og september og verða áhrifin öllu þyngri í ágúst að mati Greiningar Glitnis.

„Líklegt er að verðhækkunar á fötum og skóm muni gæta fram í október samhliða því sem haust og vetrarfatnaður kemur í verslanir,“ segir Greiningardeildin.

„Gengisvísitalan verður að meðaltali um 4% hærri á 3. ársfjórðungi en hún var á 2. ársfjórðungi og lítillega hærri en það á síðasta fjórðungi ársins. Áhrifa vegna gengislækkunar mun gæta áfram allra næstu mánuði en vera að mestu komin fram undir lok þessa árs lækki gengi krónunnar ekki umfram spá okkar,“ segir í Morgunkorni.

Verðbólga hjaðnar hratt á næsta ári

Þá spáir Greining Glitnis því að verðbólgan muni hjaðna hratt á næsta ári en nokkrir þættir muni vera þess valdandi.

„Hratt mun draga úr innlendum kostnaðarþrýstingi á seinni hluta þessa árs og eftirspurn mun að sama skapi minnka. Þegar horfur á erlendum lánsfjármörkuðum batna má reikna með að það muni leiða til styrkingar krónunnar og þar með að verð innfluttrar voru muni heldur lækka,“ segir Greining Glitnis.

„Einnig mun kostnaður vegna húsnæðis leiða til lækkunar VNV. Nokkur óvissa ríkir um verðþróun hrávöru en við gerum ráð fyrir skaplegum verðbreytingum á næsta ári. Þegar allt er samantalið reiknum við með að verðbólga verði nálægt 12% í upphafi næsta árs en að hún hjaðni hratt, að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist á 3. ársfjórðungi og að verðbólga verði nálægt 1% í lok árs.“